Á föstudaginn sat ég á spjalli við félaga minn í vinnunni. Ahmad er frá Sýrlandi, sem er í sjálfu sér heil önnur saga (og minnir á hversu hjákátleg manns eigin vandamál eru miðað við það sem ættingjar hans eru að stríða við akkúrat núna). Hann er lyftingarkappi og eitthvað barst tal að því að ég hafi einu sinni líka verið lyftingarkappi. Og ég sýndi honum myndir. Við hverja mynd sagði hann "but you´re an athlete Svava, you are an athlete!" Ég hef ekki getað hætt að hugsa um þetta síðan. Er ég íþróttarmaður?
Ég fór í nudd á laugardagsmorguninn og allan tíman þar velti ég þessu fyrir mér. Hvernig íþróttamaður er ég eiginlega? Rölti í Next og HM og komst að því að ég passa illa í föt þar orðið. Og enn spáði ég í þessu, ef ég er íþróttamaður hvað er ég þá að gera? Svo fórum við í fjalladýragarð í Colwyn Bay á sunnudaginn og enn var ég að hugsa. Upp og niður fjallastíga röltum við og ég fann hvað ég var orðin illa þjálfuð. Lúkas tók mynd af okkur Dave og ég eyddi henni þegar ég kom heim af því að ég var svo feit á henni. Langt síðan það hefur gerst. Eru íþróttarmenn þannig?
Á sunnudagskvöld kom þetta svo hjá mér. Ég er íþróttamaður. Það er engin spurning um það. Ég hef bara farið aðeins af leið. Ég leyfði vinnunni og öðru að taka yfir og hef ekki gefið íþróttinni minni þann sess sem hún á að skipa í lífinu. Ég leyfði sjálfri mér að hlamma mér niður á feitt rassgatið og sitja þar kyrr og notaði stress sem afsökun.
Til að vera eins hraust og ég vil vera þarf ég að stunda íþróttina mína af festu og ákveðni. Það að ég kjósi frekar að æfa á morgnana er ekki markvert lengur. Það verður bara að hafa það að ég þurfi að fara utan þægindahringsins míns og mæta í rækt eftir vinnu. Maður þarf jú, að leggja smávegis á sig til að ná árangri.
Ég er íþróttamaður. Ég keypti mér þessvegna kort í rækt í Chester í dag. Fór þangað eftir vinnu og lyfti þungum lóðum. Og hef í hyggju að gera það aftur. Og aftur. Sykurleysið er enn við lýði og ég ætla að halda því uppi. Og ég ætla að byrja að vinna að þessu aftur eins og ég á að gera. Þar sem æfingar og góður matur eru í fyrsta sæti. Ekki einhverstaðar fyrir aftan stress og vesen. Vinnan er bara ekki þess virði að ég fórni heilsunni fyrir hana.
Ég er íþróttamaður.
3 ummæli:
Sæl Svava,
Ég hef lesið bloggið þitt í mörg ár og fylgst með þér ganga í gegnum súrt og sætt. Sjálf er ég jójóari en inn við beinið íþróttamaður eins og þú! Ég er keppnismanneskja sem hef gleymt mér í sukkinu.
Ég held áfram að fylgjast með og styð þig heilshugar af hliðarlínunni. Þú ert mér innblástur. Gangi þér vel í að endurheimta íþróttamanninn úr dvala, þú munt hafa betur! :)
kv. frá Íslandi
Áfram við! :)
Er líka laumulesari og vil bara segja TAKK fyrir að skrifa það sem þú hugsar, það er svo ótrúlega margt sem ég sé í sjálfri mér þegar ég les bloggið þitt. Þessi endalausa barátta við matinn, maður verður víst að borða til að lifa en ekki lifa til að borða, því miður.
Áfram þú
Kv
Kolla
Skrifa ummæli