Eitthvað hef ég danglað höfðinu harkalegar í jörðina en ég hélt í fyrstu því ég er búin að vera með dynjandi hausverk og ógleði í dag. Endaði hreinlega á að fara heim heldur snemmhendis úr vinnu. Lagðist fyrir með kaldan bakstur. Fékk mér svo panódíl og líður nú heldur skár. Nú er bara að krossa fingur að ég verði betri á morgun svo ég komist í rækt, þau lyfta sér víst ekki sjálf þessi lóð.
Það verður að segjast að þó mér finnist vinnan sem ég er í stundum skemmtileg, stundum leiðinleg og stundum stressandi þá er hún líka bara vinna. Ég hef enga sérstaka ástríðu fyrir þvi að skuldbreyta húsbréfum. Það er stundum voða gefandi, sér í lagi ef maður nær að bjarga málunum þannig að fólk haldi húsinu sínu en ef satt skal segja þá er ég oftast bara eitthvað að stússast í stjórnsýslunni og fæ voða litið úr þessu. Ég hef svo sem plön um að komast í betri stöðu innan bankans en ef ég held áfram að segja sannleika þá er það einfaldlega vegna þess að ég myndi þannig fá hærri laun. Þegar maður er í vinnu sem er einfaldlega vinna þá er lífsnauðsynlegt að fá allavega vel borgað fyrir hana. Ég myndi sætta mig við lélegri kjör ef ég væri að sinna ástríðu.
Þetta þýðir að ástríðan, það sem gerir lífið þess virði, þarf að vera eitthvað sem færir manni nóga ánægju til að duga manni á meðan að maður er í vinnunni líka. Engin vinna sem er bara vinna er þess virði að maður hætti að stunda það sem veitir manni gleði. Ég er þarmeð hætt að stressa mig á vinnunni. Vinnan er bara vinna, frá átta til fjögur og svo er ég farin. Ég fæ það sem gerir lífið þessi virði að lífa því utan vinnunnar. Lífstíll fyrir mig þýðir að sinna hreyfingu af alvöru, sinna henni þannig að ég sjái árangur og að ég læri eitthvað. Hann þýðir að ég eyði tíma í eldhúsinu, við að elda, hanna uppskriftir, búa til matseðla og kanna nýjar matartegundir. Hann þýðir að ég eyði tima í að skrifa, hugsa og spekúlera. Allt þetta veitir mér fyllingu, hamingju og tilgang. Vinnan borgar reikninga. Lífstíllinn borgar allt hitt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli