Það var dálitið merkileg uppgötvun þegar það rann upp fyrir mér að ég hef aldrei haft ákvörðunarrétt yfir því sem ég borða. Ég er að verða fertug og ég hef aldrei haft sjálfsákvörðunarrétt yfir því sem ég læt ofan í mig. Sko, það er nefnilega þannig að þegar maður er í megrun þá er þessi ákvörðunarréttur tekinn úr höndunum á manni. Við það að fara í megrun er maður að segja að maður hafi ekki vilja, vald eða vit á að borða til að næra líkamann. Þegar maður fer í megrunarkúr er maður að lýsa því yfir að maður hafi ekki rétt á að stjórna sér sjálfur en lætur þess í stað völdin í hendurnar á hverjum þeim reglugerðum sem megrunarkúrinn er byggður á.
Reglurnar fóru svo að lokum alveg með mig. Í hvert sinn sem ég ber eitthvað matarkyns að vörum mér fríka ég örlítið út; "má borða fitu í morgunmat?" "Er ég búin að fá nóg prótein?" "Er klukkan of margt?" "Er ég núna að borða of mikið af kolvetnum?" "Er þetta of mikið?" "of lítið? "of, of, of???"
Það eina sem ég spurði mig ekki að var hvort ég væri svöng. Ég er þessvegna að spá í að sleppa því að hafa áhyggjur af næringarefnum og samsetningum og tímasetningum og spyrja frekar hvort ég sé að næra mig.
Þegar ég segi næra mig þá á ég við í tvennri merkingu. Þegar mig langar í eitthvað að borða er lágmarkskrafa núna að spyrja mig hvort ég sé svöng. Ef svarið er já við því þá fæ ég mér að borða. Og það sem mig langar í. Skítt með næringarefnin. En ef ég er ekki svöng þá spyr ég sjálfa mig hvaða holu ég er að reyna að fylla upp í. Leiðindi, vanefni, vanmáttarkennd, reiði, pirr. Hvað sem það nú er þá ber mér núna skylda til að reyna að fylla tilfinninguna frekar en bara túlann á mér. Það er ótrúlega oft sem ég finn að ég er ekki svöng. Eiginleg bara alltaf. Mér dettur í hug að það sé eitthvað innra með mér sem er að reyna að vekja athygli á sér, en kann það bara ekki öðruvísi en að benda mér á að fá mér að borða. Ég þarf að læra algerlega að hlusta á sjálfa mig upp á nýtt.
Enn sem komið er heyri ég bara sjálfsvorkunina. Það eru komnir nokkrir mánuðir núna og enn er ég bara á vælustigi. Þessvegna get ég heldur ekki skrifað, mér finnst ég svo ógeðslega leiðinleg.
Slakaðu bara á, reyni ég að segja sjálfri mér. Þetta reddast. Þegar maður er leiður, reiður, niðurdreginn, pirraður eða yfirkominn af hatri á líkamanum þá verður maður bara að slaka á. Taka fimm, anda djúpt og leyfa sér að klára tilfinninguna.
Fyrst og fremst er ég að vinna í því að hætta að rífa í magann á mér og kveina í örvæntingu yfir því að vera feit. Ég verð, bara verð að vera ánægð með mig, bara mig.
7 ummæli:
Þú ert bara hallærisleg ...
Dæmi hver fyrir sig en mér finnst ekkert hallærislegt við þessa konu, hún hefur verið mér persónulegur innblástur í mörg ár vegna þess hve opin og hreinskilin hún er um sitt líf :)
P.s. Maður segir ekki svona og þar að auki ekki nafnlaust , slíkt er fyrir skræfur !
Mikið er gott að að fá þig aftur með hugleiðingarnar þínar. Er búin að fylgjast með þér lengi og var farin að hafa áhyggjur. Skemmtilegar pælingar hjá þér alltaf og svo ertu nú alveg ótrúlega skemmtilegur penni. Gangi þér nú vel. Þetta kílóastand á manni er eins og að moka í botnlausan poka.
Takk fyrir, ég var farin ađ hafa áhyggjur sjálf! :)
Gott að heyra í þér aftur. Ég hef fylgst með þér um tíma og finnst þú einstaklega skemmtileg og gefandi í þínum skrifum. Þessi barátta er ekki auðveld og allt í lagi að væla undan henni. Vonandi heldur þú áfram að deila með lesendum þínum því sem þú ert að glíma við. Gangi þér vel!
Gaman heyra í þér, alltaf gaman að lesa pælingarnar þínar sem èg kannast mjög vel við, hef einmitt sjálf prufað alla kúra sem til eru :-) núna er ég á námskeiði í tækjasal sem mér líkar mjög vel, hef aldrei fílað tíma í sal. Mataræðið þessa stundina er að borða 5 máltíðir á dag og vera innan 1500 hitaeininga. takk fyrir flotta pistla og gangi þér vel með það sem þú tekur þér fyrir hendur. :-)
Kveðja Helena
Mikið er gott að þú sért komin aftur!
Skrifa ummæli