laugardagur, 6. september 2014

Það er orðinn vani hér hjá mér að eyða flestum laugardagseftirmiðdögum annaðhvort á The Racecource, sem er heimavöllur Wrexham FC, eða hlustandi á Radio Wales til að heyra lýsingu á leik. Það átti þessvegna að vera heldur betur öðruvísi skemmtun í dag að skella mér til Cheshire að horfa á Póló leik. Samstarfskona mín bauð mér með í kampavíns-og gúrkusamlokupartý og á póló. Þetta hefði að sjálfsögðu verið hin besta skemmtun, kampavín og nasl, Pretty Woman móment þegar maður fær að hlaupa út á völlinn til að laga grasið, skemmtilegur félagskapur og síðast en ekki síst brandarinn við öfgabreyturnar; utandeildarfótbolti í verkamannaborg í Norður-Wales vs Póló leikur meðal milljónamæringa og aristókrata í Cheshire. Ég er líka harðákveðin í að segja já takk við öllum svona nýjum reynslum, ég á það allt of mikið að vera feimin og hrædd (eða löt og heimakær) og láta allt of mikið fram hjá mér fara. Það er gífurlega mikilvægt að fara út fyrir þæginda rammann nokkuð reglulega.

En þess í stað sit/stend/hoppa/ligg ég hér heima, aðframkomin af kvölum í vinstri löpp. Ég er búin að þjást núna í rúmar þrjár vikur, fór til læknis sem sagði mér lítið, gaf mér bara bólgueyðandi og sagði mér að koma aftur ef þetta versnaði. Það er nú svo komið að ég get ekki verið í neinni einni stellingu samfleytt í meira en þrjár mínútur og fóturinn er allur orðin dofinn þannig að ég finn ekki fyrir jörðinni þegar ég geng. Er eins og köttur í sokkum.

Þetta er sjálfsagt bara klemmd taug en ég er bestía og með sérlega lágan sársaukastuðul og kröftugt ímyndunarafl og er núna hrínandi eins og svín og sannfærð um að ég sé með blóðtappa.

Þetta er langt út fyrir þægindaramma en alls ekki á þann hátt sem ég meinti.


1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vona að læknirinn finni fljótt út úr þessu fyrir þig Svava mín.
Kv. Kristín