sunnudagur, 14. september 2014

Eftir nokkrar ferðir til læknis er orðið nokkuð öruggt að ég er með brjósklos. Næsta ferð verður í myndatöku til að skera algerlega úr um það. Þangað til þarf ég víst bara að reyna að komast í gegnum daginn eins og ég er. Ég get ekki staðið, á mjög erfitt með að ganga,líður illa þegar ég sit og fæ verki þegar ég ligg. Ég er eiginlega bara ómöguleg. Ég er ekki með neina bakverki, sársaukinn er allur í vinstri fæti, frá rass niður í tær.

Nokkuð ýtarlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að pilates eru sjálfsagt einu æfingarnar sem ég get stundað akkúrat núna. Það er að sjálfsögðu sérstaklega mikilvægt að ég hafi líka góð tök á heilbrigðum og fallegum mat í réttu magni. Það síðasta sem brjósklos þarf á að halda er að veltast um með aukakíló.

Ég er aðeins að berjast við það núna, það er kvalafullt að standa við að elda eins og stendur. Ég byrja að kjökra við það og er eiginlega búin að gefast upp á að standa mikla pligt í eldhúsinu. Það er auðveldara og sársaukaminna að rista bara brauð eða láta Dave hlaupa út í chippie.

Góðu fréttirnar eru hinsvegar að mér skilst að fólk venjist bara sársaukanum þartil það byrjar bara að lifa með honum. Það er flott. Um leið og það gerist byrja ég að raða út hempolíubornum hnetusteikum á spínatbeðum hægri vinstri. Ekkert mál.

Engin ummæli: