Hvað er þetta þá eiginlega? Hvað er það sem gerir það að verkum að meira segja núna, eftir að hafa "fattað þetta alltsaman", og að miklu leyti til tekið á bæði hegðun og hugsanaferli, er ég aftur komin í uppreisn? Uppreisn gegn reglunum sem áttu ekki að vera reglur, uppreisn gegn rútínunni, uppreisn gegn hömlum og höftum sem ég hef sett á sjálfa mig?
Ég verð að segja að það hlýtur bara að vera að þrátt fyrir yfirlýsingar um að skilja, vita og sjá þá var að lokum lítill munur á "lífstílsbreytingum" og "megrunarkúr". Og ég er komin að niðurstöðu. Vandamálið er ekki að vera of feitur, það er einfaldlega einkenni á raunverulega vandamálinu. Og í hvert sinn sem maður reynir að taka á því, laga það sem maður telur að sé vandamálið, reynir að losa sig við aukakílóin, þá er maður bara að lagfæra einkenni alvöru vandamálsins. Það sem þarf að taka á er ofát. Ég veit að þetta hljómar skringilega en þetta bara sannleikurinn. Með því að einblína bara á vigtina er hægt að grennast og léttast. Um tíma. En fyrr en síðar þá þverr viljastyrkurinn og allt það sem maður hefur neitað sér um verður einfaldlega of mikið og ofátið tekur aftur við og af meiri krafti en áður.
Það er meira en að segja það að veita sjálfri sér leyfi til að borða eftir að hafa stundað megrunarkúra og þvingun í 30 ár. Sérstaklega þegar ofát er vandamálið. Ég get ekki hætt að borða. En þegar ég hugsa um það þá finnst mér það liggja í augum uppi að ég get ekki hætt að borða vegna þess að ég er annaðhvort að reyna að troða í mig eins miklu og ég get í undirbúning fyrir hungursneyð, eða þá að ég er að troða í mig eins miklu og ég get eftir að hafa sprungið á limminu eftir hungursneyð. Hvað ef ég leyfi sjálfri mér bara að borða það sem mig langar í? Ef ég veit að ég get fengið snickers hvenær sem mér dettur í hug hættir mig þá að langa í það?
Hvernig væri að láta á það reyna?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli