fimmtudagur, 18. september 2014

Til að öðlast frelsi frá þráhyggju um mat, mælingar, kíló, spik, æfingar, sjálfshatri, sjálfsásökunum og öllu því sem fylgir óeðlilegu sambandi við mat þarf maður að gefa alla von upp á bátinn.

Það er útilokað að öðlast frelsi á meðan nokkur minnsta vonarglæta bærist með manni um að það sé einhver kúr þarna úti, einhver skammtímalausn, einhver lífstílsbreyting, hvað sem er sem viðheldur fasta-ofát-eftirsjá vítahringnum. Í hvert sinn sem lítil hugsunararða læðist að manni sem hvíslar að ef "ég sleppi kolvetnum í dag" eða "passa hitaeiningarnar" eða "æfi stífar til að léttast" þá verður maður að byrja upp á nýtt. Og verða almennilega reið. Algerlega trítilóð af vonsku yfir lygunum sem manni hefur verið talið trú um. Að maður sé viljalaus, að maður sé ekki nógu dugleg til að "halda kúrinn út". Og algerlega brjáluð af vonsku yfir lygunum að það sé töfralausn í næstu tímaritagrein eða handan næsta horns. "Frænka mín keypti sér hjól og léttist um 70 kíló! Bara rétt sí sonna!" Og maður rýkur út að kaupa hjól. Og grætur svo söltum tárum ofan í snakkpokann sinn þegar það virkar ekki fyrir mann og í enn eitt skiptið er maður lúser sem verður alltaf feitur.

Já, maður má sko bara alveg verða reiður. Yfir öllum lygunum sem maður kaupir og lætur blekkjast af og gera ekkert nema hakka sjálfsálitið niður í réttu hlutfalli við hækkandi kílóatöluna á vigtinni.

Nei, gefðu alla von upp á bátinn. Það er enginn kúr þarna úti sem virkar. Það sem þarf er algert frelsi frá þráhyggjunni. Það þarf að rétta upp hvíta fánann og semja um frið við mat. Matur er ekki óvinurinn.

Hlustaðu á hvað líkaminn er að segjar þér. Byggðu upp traust á ný. Og finndu út hvað þú ert að reyna að fylla upp með ofáti. Hvað er spikið að reyna að segja þér?

Engin ummæli: