Mér hefur alltaf þótt voðalega kjánalegt að tala um að éta tilfinningar sínar. Það hljómar eitthvað svo hrikalega fitubollutekekkiábyrgðáeiginathöfnumlegt. Og eins oft og ég tala um það sjálf þá verð ég að viðurkenna að innst inni þá finnst mér ég bara alls ekki falla í þennan hóp fólks sem nagar sig í gegnum einhvern innri sársauka. Mér finnst matur bara alveg rosalega góður, segi ég við sjálfa mig. Ég borða bara mat sem er ávanabindandi segi ég við sjálfa mig. Ég held líka eftir áralangar rannsóknir á sjálfri mér að ég sé ekki haldin neinum skilgreinanlegum átröskunum. Ég er ekki klassískur "binge" sjúklingur í læknisfræðilegum skilningi. Á mörkunum vissulega, en ekki alveg komin þangað. Það er þessvegna alltaf svakaleg uppgötvun fyrir mig þegar ég reyni að stoppa sjálfa mig af þegar ég er orðin södd. Ég þarf að tala lengi við sjálfa mig til að minna mig á að ég geti fengið hvað sem er, hvenær sem er og að það sé engin ástæða til að éta þartil ég finn hvort eð er ekki bragð lengur. En það skilur líka eftir spurninguna hversvegna held ég áfram að borða fram yfir seddu ef ég er ekki að reyna að fylla upp í eitthvað annað sem vantar upp á. Málið er nefnilega að í hvert sinn sem maður borðar um fram það sem líkami manns þarfnast (í mælanlegu magni, ég er ekki að tala um eina og eina kökusneið eða eftirrétt við tilefni) er maður að borða af tilfinningalegum ástæðum.
Ég verð að viðurkenna að ég er stanslaust að reyna að passa að ég fái nóg áður en maturinn verður tekinn frá mér. Ég er orðin svo vön heftingunni að ég hef enga stjórn lengur á mér. Og það er það sem megrunarkúrar gera manni. Þeir hefta og hamla þar til síðast arða af einhverri sjálfsþekkingu á hvenær líkaminn er búinn að fá nóg er tekinn af manni.
Það getur nefnilega bara ekki verið að mér finnist matur bara svona rosalega góður. Ég nýt matar miklu meira þegar ég er svöng. Þá finn ég bragð, áferð og tilgang. En þegar ég borða framfyrir seddu þá hætti ég að finna bragð og að lokum er ég búin að borða þar til mér er í alvörunni illt. Þetta er ekki að elska mat, þetta er að misnota mat. Misnotkun getur ekki verið ást.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli