mánudagur, 29. september 2014

Ég eyddi sunnudagskvöldinu í að útrýma uppvakningum. Ekki í neinum metaforískum skilningi, ég er ekki að tala um einhverja andlega spikuppvakninga, heldur er ég að tala um "Zombie Experience", þriggja klukkutíma þátttöku leikhús þar sem ég og nokkrar aðrar hlupum um ganga í yfirgefnum spítala og munaðarleysingjahæli með loftbyssur að drepa uppvakninga í leit að lækningu við uppvakningavírusnum.

Við vorum að gæsa Heather, vinkonu mína úr vinnunni. Og ákváðum að gera eitthvað öðruvísi sem við vissum að hryllingsmyndabrjálæðingurinn í henni myndi fíla í botn. Þetta var alveg hrikalega skemmtilegt en líka mjög erfitt líkamlega. Spítalinn var allur í niðurníðslu og niðamyrkur. Og í þrjá klukkutíma hljóp ég upp og niður stiga, barðist við uppvakninga, skaut þá niður hægri vinstri og leysti vísbendingar til að finna lækningu við vírusnum. Vinstri löpp rétt hékk á mjöðm við leikslok og hné algerlega núin niður. Ég er í svo lélegri þjálfun. Var algerlega viss um að ég myndi vera ógöngufær í dag en þegar ég vaknaði var ég alveg hress í löpp og mjöðm. Er núna þessvegna orðin nokkuð sannfærð að þetta er sársauki sem ég þarf bara að vinna í gegnum. Þetta er öðruvisi en ónýtu hnén mín. Þau þarf ég að hlusta á og vinna í kringum. En þessi sársauki er ég alveg viss um að ég þurfi að þrýsta á og vinna með þartil ég er aftur orðin hraust. Uppvakningastemmarinn minnti mig líka á hversvegna ég vil aftur verða hraust. Það er alger óþarfi að kvelja sjálfan sig við sveittar æfingar þar sem maður hangir á að telja hverja brennda kalóríu, enda er margsannað að brenndar hitaeiningar er ekki langvarandi hvatning til að gera hreyfingu að lífstíl. En að vera aktívur og hraustur og tilbúin að takast á við uppvakningana þegar heimsendir kemur, það er sko aldeilis hvatning.

Engin ummæli: