miðvikudagur, 1. október 2014

"Ég skil ekki afhverju maður þarf stanslaust að vera að fara út fyrir rammann" stundi ein af undirmönnum mínum þegar ég var að fara yfir frammistöðuna hennar nú nýlega. "Afhverju má ég ekki bara mæta í vinnunna, gera mitt og fara svo heim? Afhverju þarf ég stanslaust að vera að reyna eitthvað nýtt?". Ég skil alveg að fólk skuli spyrja svona en mér finnst líka skrýtið að það sjái ekki svarið blasa við. Ástæðan fyrir því að það er lífsnauðsynlegt að lifa utan rammans, og það í hvaða þætti lífsins sem er, er sú að ef maður situr stanslaust inni í rammanum þá minnkar hann. Að takast á við nýjar áskoranir stækkar ekki endilega rammann, það passar bara að maður minnki hann ekki stanslaust. Ef maður situr bara sáttur við sitt þá smá saman verður maður sáttur við minna og minna svæði. Maður fattar alltíeinu að maður hefur ekki hringt í neinn í langan tíma og svo verður asnalegt að hringja af því að maður hringir svo sjaldan og svo verður bara útilokað að hringja og svo allt í einu á maður einum vin færri. Maður afþakkar eitt partý af því maður vill frekar vera heima og slaka á. Svo afþakkar maður næsta boð af því að maður þekkir færra fólk í því partýi, eða maður er að forðast fólkið sem maður hringdi ekki í. Svo eru allt í einu liðin tíu laugardagskvöld og þá fattar maður allt í einu að maður er hættur að afþakka af því að manni er ekki boðið lengur.

Þessvegna þarf maður stanslaust að fara út fyrir rammann. Það er enginn að tala um endalaus fallhlífarstökk eða sund með hákörlum. Það er nóg að fara út að labba þegar þægindaramminn segir manni að það sé tilgangslaust af því að maður er ólæknandi fitubolla. Eða að lesa bók í staðinn fyrir að horfa á sjónvarpið.

Eða mæta í partý.

Engin ummæli: