sunnudagur, 5. október 2014

Það er í raun alveg merkilegt að það séu til feitar manneskjur nútildags. Ef við spáum í öllu sjálfshatrinu sem knýr mann áfram í hverri megruninni á fætur annarri, öll skiptin sem maður stendur fyrir framan spegil og hatast við það sem maður sér, í hvert sinn sem maður sér mynd af sér og sýpur hveljur af hryllingi, allt þetta niðurrifstal sem á að hvetja mann áfram til að bræða af sér spikið. Sko, ef niðurrifið virkaði vel til að grennast, nú þá væri ekki eina einustu fitubollu að finna. Við hefðum öll hatað okkur grönn fyrir löngu.

Nei, er ekki bara nokkuð öruggt að gera ráð fyrir því að hristast af hryllingi við tilhugsunina um sjálfan sig í sundbol er ekki leiðin til að grennast. Hinsvegar má gera að þvi skóna að með ást, umhyggju og natni er líklegt að maður nái að sættast við sjálfan sig.

Í tilraun til að finna aftur ástina á líkama mínum ákvað ég að finna upp nýja hreyfingu. Ég sá fyrir mér sambland af uppvaski, dansi og hugleiðingu á einhvern svona organískan hátt sem myndi svo vera bæði ægilega söluvæn tækni og áhrifarík að ég yrði svona organískur dansleiðtogi sem myndi frelsa heimsbyggðina innan skamms. Var ægilega ánægð með sjálfa mig. Kom heim úr vinnu um daginn, smellti tónlist á fóninn og greip uppþvottabursta. Lét svo líkamann ráða hreyfingunni algerlega. Reyndi, án þess að reyna, að komast í tengls við minn innri takt. Og vaska upp í leiðinni. Í miðju kafi kom Lúkas svo inn í eldhús og spurði furðulostinn hvað ég væri eiginlega að gera. Og hvort ég gæti orðið meira "embarrassing". Jú, ég hélt nú að ég gæti gert þetta verra og tvíelfdist öll. Hann sagðist ætla að "call security",

Rannsóknir síðan hafa reyndar sýnt að ég var ekki að finna neitt upp. Svona ómeðvitaður dans er velþekkt hugleiðsluaðferð og margreynd sem aðferð til að komast í snertingu við líkamann. Sjálf veit ég að mér leið voðalega vel. Ég var ekki að hreyfa mig af samviskubiti eða með hugann við hversu margar hitaeiningar ég var að brenna. Þetta var náttúrlegt og fallegt og mér leið vel á eftir. Á þetta ekki að snúast um það?

Engin ummæli: