Ég vaknaði í morgun með gífurlega löngun til að "binge", oféta. Mig langaði til að ná mér í smjördeigshorn og súkkulaði og setjast svo niður og raða í mig, hverjum bitanum á fætur öðrum þartil ég hvorki finn bragð né tilfinningu. Í stað þess að reiðast sjálfri mér fyrir veikleikann og kalla mig öllum illum nöfnum eða einfaldlega láta eftir þessu og fara út í Kaupfélag og ná mér í góssið, ákvað ég að spyrja sjálfa mig hvað lægi að baki löngunarinnar.
Fyrsta svarið; "Mig langar bara svo í gott bragð og smjördeigshorn og súkkulaði eru svo bragðgóð" er afgreitt með: nú, þá þarftu bara eitt smjörhornsstykki og eitt súkkulaði til að fá góða bragðið og ef svo væri þá þyrftirðu ekki að borða þangað til þér er illt. Það er greinilega eitthvað meira hér að baki.
Næsta svarið kemur með hortugu þjósti; "Láttu mig í friði, ég má bara gera það sem mér sýnist!" Og það er auðveldega afgreitt með að minna mig á að ég hef gefið sjálfri mér óskilyrt leyfi til að borða og ég þarf ekki að troða í mig eins og á morgun sé dómsdagur. Ég hef samið um frið við mat, hvorki matur né ég erum núna skilgreind sem góð eða slæm eftir því hvernig ég haga mér. Ég hef samið um frið. Þannig að ef ég má borða smjörhornsstykki í hvert mál ef mér svo sýnist, hversvegna löngun til að borða átta í einu?
Þetta er næstum eins og líkamleg þörf frekar en sálræn og það ruglar mig í smástund. Mér dettur í hug að ég sé kannski bara með einhverskonar sníkjudýr inni í mér sem er svona ægilega hrifið af frönskum bakstri. En verð svo að viðurkenna að líkamleg þörf sem er svona "röng" hlýtur að koma frá einhverju sálrænu. Líkaminn veit hvað er honum fyrir bestu og myndi aldrei samþykkja ofát.
Hvað er það inni í mér, í sálinni sem telur að það að borða þangað til að spýjubökkum er komið sé það besta fyrir mig? Hvað tel ég að ég sé að "næra" með ofáti? Af því að það er það sem er að gerast. Sex ára Svava Rán er sannfærð um að hún sé að gera sér gott með þessu. Hún er að reyna að laga eitthvað.
Ég vaska upp, fæ mér ristað brauð, smelli í vél, spjalla við Ástu, hreinsa út úr herberginu hans Láka, endurskipulegg fataskápinn minn, spila á gítarinn og fer svo og kaupi súkkulaði.
Hugsa allan þennan tíma um hvað býr hér að baki, hvað drífur þessa löngun áfram. Kemst svo sem ekki að neinni niðurstöðu, ekki nema það að mér leiðist aðeins. Finnst það samt ekki fullnægjandi svar.
Kannski langar mig bara til að taka meira pláss í veröldinni?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli