Mér tókst svo ágætlega að ráða við mig í vikunni, er ekki alveg nógu meðvituð nógu oft, en reyni samt eftir bestu getu að hlusta eftir merkjum um að ég sé orðin nógu södd. Gleymi mér aðeins of oft, og oftast á kvöldin þegar ég er bara eitthvað að dingla mér og fæ mér óvart einhvern "mola" með kaffibolla. Alveg án þess að fatta það og algerlega án þess að vera svöng á neinn hátt. Það er þetta meðvitunarleysi sem er hættulegast og ég finn og veit að það snýst algerlega um þessa heimakæru værð og andleysi sem fylgir dofnu sjónvarpsglápi. Um leið og ég geri eitthvað sem hefur meiri meðvitund í för með sér kviknar á mér allri og ég þarf engan mola, eða hef nógu mikla skynjun til að fatta að ávarpa löngunina á annan hátt en að troða bara upp í mig.
Best er að spila á gítarinn. Ég get setið tímunum saman og glamrað. Meira af hamingju og gleði en af færni en það skiptir litlu máli. Samhæfing huga og handar heldur mér frá súkkulaðinu og mér er alveg sama. Á meðan ég spila er ég 100% í stundinni.
Sjallallallala ævintýri enn gerast.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli