fimmtudagur, 12. febrúar 2015

Í tvo daga núna er ég búin að leggja à ràðin um gífurlegt ofàt. Sko það er nefnilega ekki langt í bolludaginn, hann hreinlega núna á mánudag. Í ofanálag þá er hér í Bretlandi eitthvað sem heitir Shrove Tuesday og þjónar sama tilgangi og bolludagur okkar íslendinga, það er að koma í lóg eggjum og hveiti fyrir lönguföstu. Þeir leggjast því í pönnukökuát á þriðjudeginum. Ég get því, löglega, borðað bollur og pönnukökur frá sunnudegi fram á þriðjudag skyldi ég svo kjósa.

Og heilinn fer á hundrað að plotta átið, hvað ég ætla að baka margar bollur, hvort ég hafi pönnukökur í morgunmat kannski bara líka og bæti þannig amerískri uppskrift við hefðbundnari þunnar pönnsur. Hvort ég nái að raða í mig nokkrum bollum inni í eldhúsi áður en ég ber þær fram, hvort ég baki nógu margar til að halda áfram á mánudeginum og sa videre.

Ég er nefnilega ekki búin að gera neitt nema fallegt hvað mat varðar núna í þrjár vikur. Allt ferskt, allt eldað frá grunni, allt borið fram af alúð, servíettur og kertaljós. Og ekki vottur af rugli um helgar. Ég er búin að vera fullkomin. Og nú líður að ögurstund. Ég verð alltaf sorgmæddari og sorgmæddari af því sem mér finnst vera frelsiskerðing. Mér finnst lágmarksmannréttindi mín vera skert. Mér finnst eins og það sé búið að taka af mér valfrelsi, kosningarétt og tjáningafrelsi. Hvers vegna þarf ég að sleppa öllu snickers þegar allir hinir mega fá sér?

Nú geri ég mér fyllilega grein fyrir dramatíkinni í setningunni hér að ofan. Og enn betra ég geri mér líka grein fyrir því hversu rangt ég hef fyrir mér. Ég veit að valfrelsið er einmitt mitt, og að það er ég sem kýs að borða bara fallega. Og ég veit að það er mér fyrir bestu, eftir allt þá veit ég nákvæmlega hvernig bollur, pönnukökur og snickers bragðast. Ég veit það allt saman. En það er ekki þar með sagt að mér takist að koma innri vitund minni á það æðra plan að geta sagt við sjálfa mig: "En þú ert að velja, kjósa og tjá betri kostinn!" Ég er alveg föst í fórnarlambshlutverkinu, ó mig auma. Greyið ég sem "má" ekki borða það sem ég vil. Aumingja ég sem get ekki valið að borða mig veika. Armæðan.

Mér á eftir að takast að komast á þennan hugsunarhátt sem segir að ég sé ekki að banna neitt, ég sé einfaldlega að velja hollari kostinn. Ég sé hann rétt framan við mig. Þið verðið bara að gefa mér smá tíma.

Engin ummæli: