mánudagur, 9. febrúar 2015

Það er margtuggin staðreynd að ekkert er hjálplegra heilsusamlegum lífstil en rútína. Oft heyrir maður sagt (og ég er nokk viss um að hafa skrifað þetta einhverntíman) að það þarf að koma rútinunni þannig fyrir í lífinu að það að reima á sig hlaupskóna sé jafn sjálfsagt og að pissa og bursta tennurnar að morgni til. Ég hef mikið velt þessu fyrir mér og ég er farin að hallast að öðru. Jú, auðvitað þarf að koma sér upp góðri rútinu en andskotakornið ef ég vil ekki fá meira klapp á bakið fyrir að mæta í ræktina fimm sinnum í viku, sem er mér hreinlega ekki eðlislægt, en fyrir að pissa þegar mér er mál. Að pissa alveg steinliggur fyrir mér. Það þarf ekkert að sannfæra mig um ágæti þess að pissa á morgnana, það gerir sig bara sjálft. Ég þarf ekkert að diskútera við sjálfa mig hvort ég drífi mig á fætur og fari á klóið eða hvort ég mæti kannski bara hlandblaut í vinnuna. Rökræðurnar hinsvegar sem ég þarf að eiga við sjálfa mig á morgnana til að hlunkast niður í VT Bodyweight æfingu eða jóga eru hinsvegar langar og margslungnar. Mér finnst þessvegna að það sé eðlilegra að ég fái meira hrós fyrir að æfa en að hafa stjórn á þvagláti.

Hvatning og hrós eru þannig stór þáttur í að viðhalda velgengisspíralnum. Mér finnast excel skjöl best til þessa fallin. Þannig er hægt að búa til kúrfur og línurit og jafnvel pie charts sem sýna framþróun. Það er hægt að fylgjast með og setja inn í reikningsformúlur. Svona ef byssurnar birtast ekki rétt sí sonna á upphandleggjum. Excel skjöl halda manni við efnið, með dagsetningum og markmiðum sem þarf að standast fyrir ákveðin tíma. Mælanleg og raunhæf markmið halda manni við efnið og koma rútínunni í réttar skorður.

En að taka keppnina úr rútinunni eru alvarleg mistök. Að gera eitthvað jafnstórfenglegt og að mæta í ræktina fimm daga í röð, að hugsa um næringarefni í hvert mál dag eftir dag, að bregðast ekki við tilfinningakreppu með því að raða í sig snikkersi er ekki rútína eins og að pissa og bursta tennur. Það er bara miklu merkilegra en svo og það á að fagna hverjum degi, hverri góðri ákvörðun eins og maður hafi fengið Óskarsverðlaun.

Stórkostlegar allar saman.

Engin ummæli: