þriðjudagur, 14. júlí 2015

Af heilbrigði

Ég gat ekki tekið þátt í hjólreiðakeppninni. Ég var enn of veik á sunnudaginn til að geta hjólað 80 kílómetra. Ég var afskaplega leið yfir þessu en svo sem ekkert hægt að gera, ég verð bara að finna annan svona atburð og skrá mig sem allra fyrst. 

Ég er smá saman búin að vera að koma mér aftur í samt lag í síðustu og þessari viku og hef hjólað í vinnuna núna í þrjá daga og finnst ég vera öll að koma til. Verst að hitabylgjan er víst búin hér fyrir norðan. Sunnar í Bretlandi er gert ráð fyrir 30 stiga hita en hér er bara súld og rigning og ég alltaf að gaufast með rennandi blautan hjólagallann og maskarann út um allt andlit þegar í vinnu er komið. Ég er enn að stússast við að koma mér upp sem bestri tækni til að hjóla þessa vegalengd en vera samt frambærileg í "businesswear" í vinnunni. Þarf helst að vera með aukahjólagalla til taks, svona upp á óáreiðanlega veðurspá. Það er heitt, en rigning. Nánast útilokað að klæða sig eftir því, annað hvort er maður blaut eða sveitt. Ekki að ég sé að kvarta; ég þakka öllum góðum vættum á hverjum degi fyrir að vera nógu hraust til að hjóla. Það er bara engin tilfinning jafn góð og að þjóta um á hjólinu. Ég er létt, sterk og hundrað prósent heilbrigð þegar ég hjóla. 

Ég er líka smá saman að vakna til í eldhúsinu. Dave gengur svo vel í nýja lífstílnum að ég er eiginlega orðin hálf öfundsjúk. En það þýðir líka að ég reyni að halda í við hann og er að rifja upp gamla takta. Í einu svoleiðis um daginn fann ég tvennt nýtt; PB2, sem er púðrað hnetusmjör og svo þeyttan rjómaost. Hnetupúðrið þýðir að ég get sett það út í t.d hafragraut, eða smoothies eða jógúrt eða orkukúlur og fengið hnetusmjörsbragð fyrir þriðjung hitaeininga sem eru í hnetusmjöri og þeytti rjómaosturinn er eins og ostakaka einn og sér. Ég setti hann út á overnight oats með bláberjum og þeytti svo líka saman við hnetupúðrið og bjó til hnetusmjörskrem. Geggjað. Engin ummæli: