miðvikudagur, 15. júlí 2015

Af stjarneðlisfræði

Við Dave erum að undanförnu búin að "binge" horfa á nánast alla West Wing þáttaseríuna. Nútímatækni hefur gerbreytt hvernig maður horfir á sjónvarp. Nú er engin pása á fimmtudögum og í júlímánuði. Nei, núna hleður maður bara niður heilum seríum i einu og horfir svo að vild. Ég hef reynt að hætta að horfa svona mikið á sjónvarp en með þessu Sky tæki hefur það reynst erfitt. Og sér í lagi þegar efnið er hreinlega klassaáhorf eins og West Wing. Hvað um það, Leo McGarry, einn karektaranna er þurr alkahólisti. Og í einum þættinum talar hann af hreinskilni um fíknina. "I dont understand how you can only have one glass,  how you can leave half a glass of wine, how you can not want to feel like this. How can you not want another, and another, and another?" Ég gat ekki annað en kinkað kolli. Ég hef minnst á það áður hvað Dave gengur vel í nördamegruninni sinni. Hann einfaldlega telur skref yfir daginn og hitaeiningar sem hann borðar. Hann borðar allt en hættir bara þegar hann er kominn upp í 2000. Engin brögð, ekkert skipta einu út fyrir annað, engin rembingur við að borða quinoa, freekeh, kókósolíu. Ekkert diet þetta og light hitt. Ekkert. Hann einfaldlega stoppar þegar stærðfræðin segir stopp. Ég dást að honum. Fyrir mér er þetta nefnilega útilokuð tækni. Ég segi eins og Leo McGarry; ég skil ekki hvernig er hægt að stoppa. Fyrir mér er það ónáttúrlegt að fá mér eitt kex, eða eitt súkkulaðistykki. Ég skil ekki hvernig er hægt að skilja eftir hálfan poka af Maltesers. Ég skil ekki af hverju kona myndi ekki vilja fá nautnina sem alvöru binge gefur konu. 

Vandamálið er að þetta er ekki alkahólismi. Það er bara ekki hægt að leggja þetta að jöfnu. Það er ekki hægt að hætta að borða eins og maður hættir að drekka. Ég hætti að reykja. Ég hætti bara. Ég fæ mér ekki hálfa sígarettu þrisvar á dag. Ég bara reyki ekki. Mig langar alltaf smávegis í sígó, en ég sleppi því bara alveg og þannig kemst ég hjá því að byrja að reykja aftur. Þetta er ekki valmöguleiki þegar að mat kemur. Nú er ég ekki að segja að það sé verra að vera fitubolla en fyllibytta. Að maður geti bara "hætt" að drekka. Ég myndi frekar vilja vera feit en full. Það er mun meira skemmandi ástand fyrir mann sjálfan og alla í kringum mann að vera alkahólisti. Og lausnin getur aldrei verið hin sama fyrir fíknirnar. Ég er hinsvegar að segja að samkenndin kemur við að skilja að það er einfaldlega ekki hægt að hætta eftir einn. 

Í hverju felst eiginlega lausnin þá? Ef satt skal segja þá datt aðeins niður hjá mér dampurinn um stund um daginn við að hlusta á Dr Martin Reiss á Radi 4 um daginn. Hann er prófessor í  partical physics (nú get ég ekki fyrir mitt litla munað hvað það er á íslensku, stjarneðlisfræði?) og rannsakar það sem er algerlega undirstaðan að lífi á jörðinni. Stóra hvell og dark matter og warping space and time og Higgs boson og allt þetta sem stjarneðlisfræðingar hafa gaman af. Hann var að tala um óendanlega samhliða alheima (infinite parallel universes) og minnist á það í bríaríi að það sé reyndar skrýtið að eyða tíma í að sanna að kenningar um svona mindblowingly flókin hugtök þegar vísindamenn geta ekki einu sinni fundið út úr því hvernig á að skafa af sér spik! Ef stjarneðlisfræðingar telja verkefnið óyfirstíganlegt, hvernig á litla ég að geta fattað þetta?

Sjálf tel ég það ólíklegt að vísindamenn fái rannsóknarstyrki til að komast að því hvernig má einangra og útrýma fitugeni í samblandi við fíkilsgen. Ekki á meðan megrunarkúrar seljast fyrir 7 billjón dollara á ári hverju. Það er einfaldlega meiri peningur í að halda okkur nógu feitum til að vera óánægð svo við höldum áfram að eyða pening í megrunina. 

En svo tók ég aftur gleði mina. Lausnin starir nefnilega stórum augum á mann þegar um er það hugsað; ef það eru endalausir samhliða heimar allt um kring með endalausum Svövu Ránum, í endalausum uppröðunum af möguleikum, er ekki eðlilegt að gera ráð fyrir að í að minnsta kosti einum þeirra sé hún þvengmjó? 


Endalausar Svövu Ránir

Engin ummæli: