miðvikudagur, 7. október 2015

Af handjárnum og hnúum

"Það er rigningarsuddi sem úðar göturnar í kvöldhúminu á þessu þriðjudagskvöldi í rólegum iðnaðarbæ í Norður-Wales. Óeirðarlögregla stendur í þéttri röð meðfram lestarstöðinni og þvert yfir umferðargötuna þar hjá. Venjulegir "Bobbies" með auðkennanlegan háan hjálminn rölta um tveir og þrír saman. 6 sjúkrabílar eru kyrrstæðir við götuna. Ýlfur og urr heyrast allstaðar að þar sem illúðlegum lögregluhundum er haldið aftur af og yfir öllu heyrast svo þúmp þúmp hljóðin úr þyrlunni sem sveimar yfir. Hvað er í gangi? Yfirvofandi stríð? Heimsókn frá páfanum? Uppvakningainnrás? Nei, Tranmere Rovers ætla að spila fótboltaleik við Wrexham AFC. 

Tranmere er bær rétt utan við Liverpool sem, eins og flestir bæjir norður í Bretlandi hafa séð fífil fegri. Atvinnuleysi og menntunarleysi og hátt hlutfall bótaþega eru eftirstöðvar af Thatcher árunum og erfitt hefur reynst að spýta atvinnu og möguleikum inn í þessa staði öfugt við stærri borgirnar eins og Manchester og Liverpool sem undanfarin ár hafi verið í stanslausri uppgöngu. Fótbolti hefur verið ódýr og þægileg lausn frá hversdagsleikanum fyrir fólkið á þessum stöðum og hefur líka verið vettvangur fyrir útrás á uppsafnaðri gremju og/ eða fávitaskap, hvernig svo sem maður lítur á það.

Tranmere Rovers féllu niður um deild í vor og eru því núna komnir í utandeildarstöðuna sem Wrexham hefur verið í síðust átta árin. Við höfum ekki mæst í leik í 10 ár. Eins og alltaf með lið sem eru nágrannar skapast gífurleg spenna í kringum leikina. Fleiri stuðningsmenn hafa tök á að koma af því að ferðalagið er stutt og það er skilningur á aðstæðum hvors annars. Ég hafði nú samt ekki alveg gert mér grein fyrir lögregluviðbúnaðinum. Dave var búinn að útskýra þetta fyrir mér en ég satt best að segja trúði honum ekki. Hann var að tala um leiki á níunda áratugnum þegar fótboltabullur léku lausum hala, þetta væri ekki svona núna. Ég missti því andlitið þegar við gengum framhjá lestarstöðinn þar sem Tranmere áhangendur voru stíaðir af á meðan löggan beið eftir að Wrexham áhangendur löbbuðu framhjá og að vellinum. Hróp og köll og krepptir hnefar heyrðust og sáust og mér varð um. Sér í lagi þegar kom í ljós að við þurftum að fara inn annarstaðar en vanalega og við enduðum á að ganga í flasið á hóp af Trannies sem voru syngjandi af spennu. Rauði trefillinn minn hefði getað komið mér í klandur en sem betur fer komumst við framhjá þeim óséð og inn á völl.

Leikurinn var svakalega spennandi og endaði 2-2 eftir mikla baráttu. Við vorum nokkuð sátt þó sigur á heimavelli sé alltaf æskilegri, en Tranmere eru í öðru sæti í deildinni, við í áttunda þannig að við gátum alveg búist við erfiðum leik. 

Tranmere fólkið söng okkur út sem olli mér vonbrigðum. Vanalega syngjum við allan tímann og þöggum niður í öllum mótbárum en þeir höfðu okkur þar. "He left cause you're shit" góluðu þeir á okkur þegar Jay Harris, fyrrverandi leikmaður okkar kom á völlinn, en hann spilar núna fyrir Tranmere. Gamalkunnugt sheepshaggers söngl og þessháttar. Einn af þeim var svo reyndar handtekinn fyrir að æsa upp kynþáttahatur sem mér fannst ægilega fyndið því kynþátturinn sem um ræddi var velskur. Ég vissi ekki að það mætti ekki djóka þannig með Veilsverja! Allavega, við reyndum að svara með "sign on, sign on, with hope in your heart and you will never work again" sungið við You'll never walk alone. Tilvísun í að Tranmere er bara stoppistöð í Liverpool og hversu illa stödd þau eru hvað atvinnuleysi varðar.

Að leik loknum lentum við svo aftur í klandri þar sem festumst með Tranmere fólki fyrir innan lögreglumúr. Tranmere fólkið var pirrað og í leit að slag eftir jafnteflið og yfir að vera haldið aftur. Við náðum svo að láta eina lögguna hleypa okkur í gegn og komumst aftur í hóp Wrexham fólksins. Héldum svo heim nokkuð sátt með frammistöðu okkar manna. 

Ég skil að vera ástriðufull þegar kemur að velgengni liðsins þíns. Ég skil hópsamstöðuna og ég skil vellíðanina sem fylgir skoruðu marki og unnum leik. Ég skil meira að segja sorgina sem fygir þegar illa gengur og pirring gagnvart sérstöku liðið. En slagsmál? Fyrir slagsmálanna sakir?

Fyrir utan að ég skildi hnúajárnin eftir heima og gat ekki tekið þátt.

Engin ummæli: