Á laugardagskvöldi horfir gamalt, leiðinlegt fólk eins og ég er á Strictly come dancing á BBC1 og sofnar svo í sófanum. Það hvað helst hressir uppá tilveruna og veitir tímabundna lausn frá eintóna leiðindum lífsins er nammi. Ég var búin að plana veisluna allan daginn, taldi út hitaeiningar og vigtaði næringarefni í tilraun til að fá hvað mest "bang for my buck." En þegar að kveldi kom var lítið eftir af hitaeiningum úr að moða. Ég sat með 25 grömm af karföfluflögum og hálft chunky Kitkat. Þvílík vonbrigði! Þetta var ekki upp í nös á ketti. Ég maulaði engu að síður á "veislunni" minni, kláraði og leit svo í kringum mig í forundran. Ég var sátt! Þetta var nóg fyrir mig. Þegar ég svo vaknaði á sunnudagsmorgun varð ég að stoppa við og þakka góðum vættum hversu vel mér leið. Ekkert kolvetnakóma. Engir liðverkir, engin ónot í maga og best af öllu, ekkert samviskubit. Og ég fattaði að ég hef verið að ljúga að sjálfri mér í áratugi. Hvenær sannfærði ég mig að ég væri fíkill? Að ég gæti ekki bara fengið mér einn? Hvenær byrjaði ég að trúa lyginni um sjálfa mig? Að ég væri þessi óalandi og óferjandi bestía sem hefði enga stjórn á sér?
Þetta var svona algert uppljómað móment þar sem ég sá sjálfa mig í algerlega nýju ljósi, allar "reglur" breyttar. Ég velti þessu fyrir mér í allan dag. Nýjar reglur, hvernig virka þær þá? Þýðir þetta að eg geti farið að treysta sjálfri mér, að ég geti í alvörunni valið það sem er best fyrir mig.
Það forðaði því reyndar ekki að ég fann aftur fyrir tómleika tilfinningu í dag. Mig vantar enn eitthvað í lífið sem veitir næringu. Ég vel það orð vegna þess að ég hef hingað til valið að borða til að fylla upp í tómarúmið. En það er ekki næring í formi matar sem mig vantar heldur frekar andleg næring. Ég þarf að hugsa þetta betur en mer finnst eins og að þetta sé alveg beisikk stöff. Eina skiptið sem ég hef grennst án þess að hugsa um það var árið sem ég bjó í Belgíu. Það var vegna þess að ég var fullkomlega nærð allt það ár, vinir, tónlist, menning og listir og ómælt magn af bjór. Ég þarf að finna út hvað nærir mig.
Nýjar reglur. Spennandi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli