laugardagur, 3. október 2015

Af réttum hlutföllum


 
Ég er nokk viss um að flestir væru mér sammála þegar ég segi að góð sambönd byggja á málamiðlun. Þannig fá báðir samningsaðilar einhverju sínu framgengt og geta auðveldlegar látið gossa það sem þarf. Og ég hugsa að flestir geta líkað kinkað kolli þegar ég segi að þetta snýst að miklu leyti til um litlu hlutina, litla amstrið í hversdeginum sem endar svo á því að skipta hvað mestu máli. Ég held að ég og útlendingurinn minn séum orðin nokkuð lunkin við málarekstur þennan. Málamiðlunin felst mest í að ég gaf Ísland upp á bátinn og fæ þessvegna að hafa allt annað eins og ég vil hafa það. En svo eru svona einn og einn smahlutur sem við rekumst á með. Uppvaskið er einn slíkur. Ég vil að uppþvottaburstinn liggi í vaskinum, Veilsverjinn leggur hann alltaf á vaskbrúnina. Ég labba framhjá og ýti honum ofaní vaskinn, hann býr sér til kaffi og veiðir hann aftur upp og leggur nett á brúnina. Og så videre. Og ég er ekki að kalla þetta skilnaðarsök, en anskotakornið ef þetta skapar ekki netta spennu svona yfir daginn.

Við fórum í dag í smá göngutúr, fengum okkur morgunmat og röltum svo einn hring um búsáhaldaverslun hér í Wrexham. Fann þar þennan forlata uppþvottabursta. Hann er með litlu haki þannig að hann hvílir bara nett á vaskbrúninni. Algerlega fullkomin málamaiðlun; hvorki í vaski né upp úr. Glöð keyptum við burstann og kysstumst svo fyrir utan búðina og óskuðum hvort öðru til hamingju með hvort annað, það eru jú litlu hlutirnir sem skipta máli.

Ég léttist um tvö kíló í vikunni. Að hluta til vegna þess að ég hef tekið ábyrgð, á sjálfri mér og gagnvart öðrum. En líka vegna málamiðlana. Ég þarf að gefa og taka, fá réttu næringuna og réttu saðninguna í sambland við rétta djúsí faktorinn.

Ég finn svo út úr þessu með klósettsetuna og tannkremstúpuna næst.

Engin ummæli: