Ég fór á lyftinganámskeiðið mitt í gær. Það var alveg frábært, við fórum yfir þessar grunnhreyfingar, squat og deadlift og fórum alveg í gegnum hárrétt form þar á. Við reiknuðum líka út max þyngd í hvorri æfingu þannig að ég var alveg í essinu mínu að lyfta eins þungu og mögulegt var. Ég ræð ekkert við mig, æsist öll upp í að sýna mig. Hoppa um og heimta high five eftir hverja lyftu. Mér finnst þetta bara svo rosalega gaman og það er svo skemmtilegt að eyða tíma með fólki sem hefur svona gífurlegan áhuga á því sem það er að gera. Ég er líka nokkuð viss um að gleðin og áhuginn sem ég sýni þjálfurunum efli þá í að gera sitt starf skemmtilegra og áhugaverðara. Það fékk mig svo mikið til að hugsa um hvað maður eyðir tíma sínum í. Eftir því sem maður eldist verður tími hreinlega dýrmætari og dýrmætari. Og það er svo mikilvægt að það sem maður gerir auki verðmæti lífsins á einhvern hátt. Sé ´value added´ eins og við segjum í bankageiranum. En ég sjálf er ekki að tala um peninga. Ég er að tala um að bæta verðmætum við hvernig manni líður, hvernig maður tekur á verkefnum. Þannig sé ég það sem vel völdum tíma í morgun að búa til grunnefni fyrir spennandi yfirnótthafra fyrir vikuna. Ég blandaði þurrefnum í tvo skammta af gulrótaköku og tvo skammta af möndlunammi. Þarf núna bara að hella mjólk og jógúrt út í að kveldi til og á svo djúsí 265 hitaeiningar og 24 grömm af próteini í morgunmat alla vikuna. Og þarf ekkert frekar að hugsa um það. Mér þykir líka tíma vel varið í ræktinni þar sem tæpur klukkutími að morgni til lætur mér líða eins og ég sé sterk og stinn og falleg og geti tekist á við hvaða verkefni sem er það sem eftir lifir dags. Mér finnst líka gaman að lesa og rannsaka og mér finnst afskaplega gaman að hlusta á heimildaþætti í útvarpinu. Ég er podcastjunkie. En ég sanka að mér svo miklum upplýsingum að tíma mínum er vel varið í að hlusta og lesa. Mér finnst líka mikilvægt að einbeita mér að því sem ég er flínk við að gera nú þegar. Ég er ekki alveg sannfærð um ágæti þess að stanslaust standa í að skora á sig að gera eitthvað sem maður gerir illa eða er hræddur við. Þannig er minn styrkur falinn í skipulagi. Ég sé því ekkert að því að ég haldi áfram að einbeita mér að því að skipuleggja mig. Ég skil að það gæti verið áhugavert fyrir mig að fara út fyrir comfort zone og lifa við skipulagsleysi öðruhvoru en svona að meginupplagi hlýtur að vera betra fyrir mig að einbeita mér einfaldlega að því að styrkja enn frekar það sem ég geri nú þegar allra allra best.
Tíma mínum er vel varið í að spekúlera í spiki. Fátt hefur gefið mér meira en þetta ferli mitt að skoða spik frá öllum sjónarhornum. Og það veitir mér endalausa gleði að finna fyrir forvitni á hverjum morgni. Hvað ætli ég uppgötvi í dag?
Ég er núna 95.8 kíló, tæpum 10 kílóum frá mínu léttasta. Ég tók varla eftir þessu sjálf, hvorki að verða aftur 110 né þessu að skyndilega vera komin vel undir hundrað. En það breytir því ekki að hver dagur er búinn að fela í sér einhvern lærdóm og einhverja gleði.
2 ummæli:
Frábært að lesa hjá þér :) Væri dásamlegt ef þú nenntir að setja inn uppskriftirnar þínar, t.d. af yfirnótthöfrunum :)
Hmmm... Já uppskrift segirðu. Það er ekki eitthvað sem ég á til svosem. 40 grömm af tröllahöfrum, hálfur bolli möndlumjólk og kvartbolli af skyri. Svo bara það sem manni dettur í hug; röspuð gulrót, kanill og negull og rúsínur. Eða kakó og kókósmjöl, eða PB2 eða bara eitthvað. Prófaðu að gúgglað overnight oats. Netið er örugglega yfirfullt af allskonar uppskrfitum ;)
Skrifa ummæli