laugardagur, 5. mars 2016

Af vigtinni

Á föstudögum er sérlega gaman að vera ´management´ í Bretlandi. Þá er casjúal friday og við sem vanalega þurfum að mæta í drögtum og jakkafötum fáum að sitja við skrifborðin okkar í gallabuxum og bol. Sumir jafnvel mæta í peysum sem lýsa yfir stuðningi við hitt og þetta fótboltalið og skemmtilegar umræður skapast á meðan að sumir nota tækifærið til að vera kreatív og sýna persónuleikann með björtum litum eða stuttum pilsum. Sjálf nota ég oftast tækifærið til að vera bara í örlítið þægilegri skóm. Ég er hrifin af ´business wear´ og á fullt af fallegum fötum sem eru fín en samt töff. Í gær ákvað ég reyndar að vera alveg afslöppuð og fór í grænu buxurnar sem ég rétt gat hneppt hérna fyrir nokkrum vikum. Smeygði mér hreinlega í þær eins og ekkert væri sjálfsagðara og var í þeim allan daginn í vinnunni. Alla vikuna var ég búin að vera löng og mjó, tilfinningin í líkamanum af léttleika og styrk eins og ég væri bambusstöng. Ég kláraði fyrsta hluta af þremur af lyftingaprógramminu mínu og hafði bætt í þyngdir allstaðar. Á fimmtudag og föstudag hefði ég frekar kosið að vera bara áfram í ræktinni frekar en að fara í vinnunna, hefði getað haldið áfram að lyfta allan daginn. Ég hélt mig innan hitaeiningamarka, mældi próteinið og og laug engu. Ég var meira að segja farin að gæla við að setja inn nýja mynd hér til hliðar. 
Þegar ég svo vaknaði í morgun fann ég þyngslin í líkamanum og vissi án þess að stíga á vigtina að ég hefði ekki misst eitt einasta gramm. Ég var þunglamaleg og með krampa frá rassi niður í tá. Og það var eins og ég hélt, 500 grömm upp á við. 
Og það er merkilegt að fylgjast með hugsanaferlinu sem fer í gang. Fyrir utan ´afhverju????´ þá finnst mér merkilegast hversu fljótt það kemur að segja bara ´fokk it´ ég borða þá bara. Ég er greinilega aumingi sem á aldrei eftir að takast þetta, þrátt fyrir það sem lagt er í, þá er ég bara ræfill og lúser og ég á bara að vera feit og ég get þetta ekki og ég get þetta ekki og ég. Get. Þetta. Ekki. Í fjórar sekúndur leyfi ég mér að hugsa svona. Leyfi mér að velta mér upp úr sjálfsvorkun og misery og gæla við fantasíur um allt sem ég ætla þá bara að borða. Þetta er hugsunarháttur sem er sérstakur fyrir fitubollur og er í raun og veru bara formálinn að því að veita sjálfum sér leyfi til að éta eins og bestía; ég er hvort eð er aumingi, best að borða bara þessa súkkulaðiköku. En ég er ekki ekki þannig lengur. Ég þarf ekki að gefa sjálfri mér leyfi. Og ég er svo sannarlega enginn aumingi. Ef mig langar til að borða súkkulaðiköku nú, þá geri ég það. En ekki í refsingarskyni fyrir að vera veiklunda. Súkkulaðikökur borðar maður af gleði, ekki af sorg. 
Ég bý þessvegna til þá skýringu að ég sé hreinlega svo mikill vöðvamassi að í þessari viku hafi ég bætt á mig vöðvum án þess að tapa mikilli fitu. Ég strýk yfir viðbeinin mín sem standa út. Ég hnykla byssurnar. Ég tala við fólkið mitt, fólkið í mínu horni. Og ég minni mig á að ég var í buxunum. Ég var í fokkings buxunum. 

Engin ummæli: