sunnudagur, 13. mars 2016

Af salsa og sósu

Ég fór til London á miðvikudagskvöld eftir vinnu til að eyða þar nokkrum dögum við drykk, dans og dufl með sálsystrum mínum. Það er alltaf jafn gaman að koma til London, ég fer þangað nokkuð reglulega og Ástu minni tekst alltaf að sýna mér eitthvað nýtt og skemmtilegt. Í þetta skiptið var það Borough Market sem er náttúrulega bara svona mekka fyrir okkur mataráhugafólkið. Ég gæti í alvörunni eytt heilu dögunum við bara að rölta á milli grænmetis, osta, krydds og kruðerís og skoðað, andað að mér loftinu og notið þess að smakka og fá hugmyndir að nýjum uppskriftum. Ég keypti mér líka forláta nestisbox sem er svo núna búið að veita mér andríki til að búa til alveg nýtt salat og salatdressingu tilbúna fyrir morgundaginn. 
Ég tók mér náttúrulega alveg frí á meðan á London dvölinni stóð. Ég hafði ákkúrat klárað fyrsta hlutann af lyftingaprógramminu þannig að það var eiginlega bara flott að taka smá re-load pásu og byrja svo aftur alveg fersk á morgun í nýja prógramminu. Ég taldi engar hitaeinigar og fékk mér bara það sem mér sýndist og þó svo að ég hafi nú ekki neitt farið yfir strikið í neinu þá voru kolvetni í heldur stóru hlutverki ásamt áfengi sem er ekki vanalega á matseðlinum. Og ég þyngdist um 2.1 kíló. Ég hef engar áhyggjur af því. Veit að þetta er bjúgur og salt og rauðvín og fer auðveldlega þegar ég kemst aftur í svíng. Partýinu er reyndar alls ekki lokið strax því ég er svo að fara út að borða og svo að sjá Ed Byrne í kvöld. Já, það er líka menning hér í útnáranum Wrexham. 
Eitt tók ég til mín í London og það er að mig langar til að læra að dansa. Mig vantar að bæta aðeins cardio hreyfingu inn í prógrammið mitt og langar til að gera eitthvað sem er öðruvísi og skemmtilegt en er líka áskorun fyrir mig. Ég hef engan áhuga á neinum af tímunum í ræktinni, nema kannski spin en það er líka svona bara meh af því að ég get frekar bara hjólað sjálf úti. En dans virkar á mig sem meira svona alvöru hæfileiki til að hafa. Ég er alveg hrikalega lélegur dansari og það gæti því verið eitthvað sem ég get notað sem svona ´out of comfort zone´ æfingu. Og lært eitthvað nýtt í leiðinni. Ég þarf stanslaust á því að halda að krydda upp í lífinu hjá mér. Ég verð leið á hlutum fljótt og hef bara lært að það er tilgangslaust að hafa áhyggjur af því eða reyna að þröngva sjálfa mig til að ´stick with one thing!´ Það er bara ekki ég. Nú er það bara að finna einhvern Antonio sem getur kennt mér! 

Engin ummæli: