sunnudagur, 27. mars 2016

Af súkkulaði


Eftir stutta leit í stofunni fundust þessi egg á páskadagsmorgun. Lúkas hafði ákveðið að hann væri ekki of stór til að leita að þeim þannig að við eyddum skemmtilegri stund við heitur og kaldur áður en öll eggin voru samankomin. Hann greip eitt lítið og borðaði og skildi svo afganginn eftir á borðinu, sagðist vera saddur og hann fengi sér meira þegar hann langaði í. Sjálf ligg ég í sófanum og get mig hvergi hreyft, baða bara út höndunum í von um að ég hitti lyklaborðið. Ég nefnilega gat ekki hætt þegar ég var orðin södd. Eitt eggjanna er lakkrísegg sem þýddi að hvorki Lúkas né Dave myndu borða það þannig að ég átti það alveg út af fyrir mig. Braut það niður og raðaði svo skipulega í mig á meðan við spiluðum eitt Trivial. Og er núna bara illt. Og mér datt í hug að ef ég hefði, 12 ára gömul, vaknað við þennan súkkulaðieggjafjöld hefðu viðbrögð min verið eitthvað öðruvísi en viðbrögð Lúkasar. Ég hefði í fyrsta lagi ekki náð andanum. Ég hefði hreinlega ekki getað höndlað að bæði anda og eiga þetta mikið nammi. Svo hefði ég gripið eins mörg og ég gæti borið og falið mig einhverstaðar til að borða þau í friði og ró á meðan ég læsi eina Ísfólksbók. Þvílík hamingja! 
Það segir mér víst enginn að ég sé búin að fá nóg núna nema ég sjálf. Og ég kaus að hlusta ekki á sjálfa mig í dag. Það er fínt, mér þykir ágætt að minna sjálfa mig á að ég sé fullorðin og geti gert eins og mér sýnist. Að ég beri ábyrgðina á magaverknum, ég vissi afleiðingarnar en gerði þetta samt. Ég held reyndar að ég sé núna á því stigi að frekar en að spyrja sjálfa mig í forundran af hverju ég geri sömu mistökin aftur og aftur þegar ég veit afleiðingarnar þá sé þetta frekar svona eins og að láta sér leiðast öðru hvoru. Ef manni leiðist aldrei þá metur maður heldur ekki góðu stundirnar jafn mikið. Ef ég borða mér ekki til óbóta öðruhvoru þá met ég heldur ekki hversu miklu betur mér líður þegar ég er holl og hrein. 
Eða sko, það hljómar allavega ágætlega sem afsökun fyrir að teygja mig í annan mola núna...

Engin ummæli: