laugardagur, 26. mars 2016

Af teygjum


Það eru haldnir páskar hér á Bretlandseyjum, þannig að bæði föstudagurinn langi og páskasunnudagur eru frídagar. Sunnudaginn færa þeir bara yfir á mánudaginn sem við köllum annan í páskum. Ég sá mér því leik á borði og bókaði fimmtudaginn á undan og svo alla næstu viku sem frí. Þegar maður er í fríi fer allt plan úr skorðum og það er auðvelt að slaka bara á öllum kröfum um árangur. Ég ákvað að vera alveg slök með þetta líka en setti mér svona nokkrar grunnreglur til að fylgja. Ég þarf að viðhalda lyftingaprógrammi alveg. Það eru fjórir dagar í ræktinni þar sem ég tek nokkuð skart á. Ég þarf líka að fara í tvær góðar göngur með strákunum mínum. Og allur matur sem ég borða þarf að borða sitjandi og með fulla meðvitund. Ég á það voða mikið til að stinga molum upp í mig án þess sérstaklega að taka eftir því en ef fullri meðvitund er beitt þá er auðveldara að hafa, ef ekki stjórn, þá allavega yfirlit yfir hvað maður er í alvörunni að setja upp í sig. 
Ég á hérna velskt lambalæri og íslenskt páskaegg og hef fyllilega í hyggju að borða, og njóta hvoru tveggja á morgun. Það var þessvegna gott að vita að ég hafi lést um hálft kíló í þessari viku. Er orðin 94.6 kg og ég bara gæti ekki verið ánægðari með sjálfa mig þó ég reyndi. 

Ég er svo enn að vinna hörðum höndum (eða lærum) að því að losa um stirðleikann í mjöðmum og lagfæra sciatica vesenið ásamt því að bæta hnébeygjurnar mínar. 
Rétt rúmur mánuður hér á milli og það er kannski bara hársbreidd sem á munar en ég er bæði uppréttari í baki og með dýpri beygju á hnjám á nýrri, efri myndinni. Það er rosalega gott að hafa svona viðmið þegar kílóin fara að segja minna og minna og svona árangur verður mikilvægari. 

Engin ummæli: