Síðust tvær vikur hafa svo verið algerlega út úr kú hvað stress í vinnu varðar. Þannig að ég hef ekki tíma til að fara á klósettið hvað þá að spá í hvað ég er að borða, ef ég þá næ að setja eitthvað í mig. Öll æfingin í að borða eftir hungri kemur sér vel núna og þegar ég lít tilbaka er ég nokkuð ánægð með magn þó gæði hafi verið í klénni kantinum. Hitt er svo að ég er lika ánægð með hversu vel mér tekst að fríka ekki út í samviskubiti eða rugli yfir að hafa ekki tíma í að hugsa almennilega um sjálfa mig, ég veit að þetta er tímabundið ástand.
Ég hef til að létta á stressi fundið fró í sýndarheimsinnkaupum, virtual shopping. Það er mikil stresslausn fyrir mig að versla. Föt, mat, snyrtivörur, skó, skiptir litlu, mér líður betur þegar ég kaupi eitthvað. Ég hef svo líka komist að því að það virðist vera nóg að safna myndum a pinterest. Ég skoða og vel allskona dót sem mig langar í og það virðist veita nánast sömu áhrifin og að kaupa drasl í alvörunni. Nánast. En ekki alveg.
Um síðust áramót ákvað ég að draga úr neyslu í 12 mánuði. Mér hreinlega blöskrar ruglið sem er í gangi hvað varðar þessa einnota tísku. Ofneyslan, umhverfis-og félagsleg áhrif, allt. Og þetta gekk ljómandi vel. Í apríl eða maí sat ég svo við morgunverðarkaffibolla með íslenskt tískutímarit fyrir framan mig og sá auglýsta íslenska ullarsokka. Ég man ekki hvernig ég réttlætti en sokkana keypti ég.
Ég var hæstanægð og sá ekki mikið að að eyða í sokka. Ég á núna reyndar bara einn, hinn farinn hvert svosem það er sem hinir sokkar fara.
Svo varð ég mjó. Ég var sko orðin 109 kíló í Septmeber 2015 en í maí 2016 var ég komin niður í 95. Og mig hreinlega vantaði nýtt. Ég ákvað að reglan væri að ég mætti kaupa mér dýra, vel gerða flík. Designer kjól sem væri alvöru. Og ég keypti mér æðislegan kjól frá Warehouse, helmingi dýrari en ég vanalega eyði í kjól og ég var í honum annanhvern dag í sumar. Og fékk hrós í hvert sinn. Hann er líka æðislegur við sokkabuxur og hnéstígvel nú þegar er kominn vetur. Algjört uppáhald og sannfærði mig um réttmæti þess sem ég var að gera.
Síðan þá er ég búin að kaupa einn svartan einfaldan vinnukjól fyrir ráðstefnu sem ég fór á, diskógallann fyrir verðlaunaafhendinguna, eina skyrtu og nú síðast æðislegan Jigsaw ullarkjól í vinnuna. Þrisvar sinnum dýrari en það sem ég keypti áður en ég sver þetta er kjóll sem ég á eftir að nota í langan tíma.
Ullarkjóllinn næst á myndinni. Hitt er allt sem ég hef keypt í ár. Þetta er ágætis árangur af áramótaheiti.
Síðast þegar ég fór til London ákvað ég svo að bæta mér upp ullarsokkinn tapaða og keypti þessa á Borough Market:
Glæsilegar mörgæsir og ég fer í þá á hverjum degi um leið og ég kem heim úr vinnu. Væri helst til í að fara aftur til London og kaupa annað par.
Ég ber saman myndina hér að neðan, tekin á klósetti í lest á leið á ráðstefnu, við myndir teknar í September árinu á undan, og ég réttlæti auðveldlega nýjan kjól. Ég átti hann skilið. Ég er þvengmjó!
Ég tel svo ekki með föt sem eru gjafir eins og forláta lopapeysa sem mamma prjónaði handa mér og ég nota við öll tækifæri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli