mánudagur, 16. janúar 2017

Af auðmýkt

Ég lagði af stað í rækt klukkan fimm þrjátíu í morgun, hjólaði galvösk í gegnum velska rigningu til að hitta á Paddy klukkan sex. Tíminn með honum var svo betri en ég þorði að vona. Hann hafði ekki sent mér prógrammið mest megnis vegna þess að hann vildi fara í gegnum það með mér. Sýna mér allar hreyfingarnar og passa að ekkert væri of mikið fyrir bak og hné. Svo var hann líka með vitlaust netfang. Allt fyrirgefið og ég hlakka núna bara til að vinna með honum. 

Hann vill að ég haldi líka út matardagbók. Ég ætlaði fyrst um sinn að malda í móinn. Hvað gæti hann, þvengmjór drengstaulinn sagt mér til um mataræði? Það er EKKERT sem ég veit ekki um hvernig á að borða mat í aðhaldi! En svo mundi ég að mottóið í ár er auðmýkt. Ég er að reyna að hætta að vera svona hrikalega hrokafull. Þannig að ég ætla samviskusamlega að hripa allt niður fyrir hann og sjá hvað hann segir.  Ég hef reyndar haldið úti myndamatardagbók með vinkonu minni á FB um nokkurt skeið en kannski verður áhugavert að heyra hvað 25 ára strákpjakkur segir um matinn minn?

Kjúklingaleftovers með grænmeti

Túnfisksalat, nachos og skyr

Bananni og 20 g af hnetusmjöri

Yfirnáttúrulegir hafrar með rúsínum, kanil og grískri jógúrt.2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Að lesa viðhorf þitt til matardagbókarinnar minnir mig á samtal sem ég átti einu sinni við sponsor þegar ég var að vinna með fíknivanda.
Sponsorinn: Þú veist alveg hvernig þetta virkar er það ekki? Með allt á hreinu hvaða aðferðir eru bestar og hvað þarf að gera?
Ég: Já auðvitað, ég er búin að kynna mér þetta mjög vel allt, hef gert þetta áður
S: Já, þú ert vel menntuð og klár, líklega veistu þetta allt
Ég: (full af smugnessi og hroka yfir eigin ágæti) hahaha já akkurat
S: (horfir mjög beinskeytt á mig) þetta hefur nú ekki virkað neitt sérstaklega vel hjá þér hingað til, ha? Svona miðað við hvernig þú ert stödd .... Hvernig líst þér á að gera bara það sem ég segi þér að gera núna í einhvern tíma og leggir þínar eigin hugmyndir til hliðar?
Ég: orðlaus, en reyni alvarlega á auðmýktina og hef verið á beinu brautinni síðan, en mikið var erfitt að kyngja besserwissernum og hlýða öðrum sem ekki hlustaði á neinar afsakanir eða réttlætingar um hversu spes ég væri

murta sagði...

Þetta er svona, að setja smávegis traustið í hendur á öðrum en sjálfum sér sem er svo erfitt. En gott að muna einmitt að manni hefur kannski ekki gengið best sjálfum! Og svo er ég líka alltaf að velta fyrir mér tengingunni á fíkni og mat...