Teymið sem deilir hæðinni með mínu teymi er búið að setja upp keppni sín á milli um hver getur lést mest á næstu vikum. Svona Biggest Loser dæmi eitthvað. Ég var að spjalla við eina úr því teymi í dag þegar hún sagði mér hvað hún er þung, hversu mikið henni brá við að sjá upphafstöluna sína. "93 kíló! stundi hún. Ef hún væri Íslendingur hefði þetta verið sagt á innsoginu. "Ég er 93 kíló! Ég er skrímsli!" kveinaði hún.
Ég var alveg rosalega hissa. Í fyrsta lagi að hún skildi segja mér hversu þung hún er. Það er vanalega algert tabú að segja upphátt hversu þungur maður er hérna, ég held ég hafi bara aldrei heyrt aðra breska konu segja mér raunþyngd. Í öðru lagi þá var ég hissa á hversu þung hún er. Ég hélt í alvörunni að ég væri eina manneskjan sem er þyngri en ég lít út fyrir að vera. Ég hefði aldrei giskað á að hún væri mikið yfir 80 kílóum. Ekki að það skipti máli, það er alltaf að verða augljósara að meðalþyngd og staðlar bara virka ekki á manneskjur. Engu að síður þá rak mig í rogastans. Kannski að hér væri einhver loksins sem ég geti borið mig saman við til að reyna að sjá utan frá hvernig ég lít út í alvörunni. Mig vantar alltaf einhvern sem ég get borið mig saman við til að reyna að lækka í mér rostann. Ég nefnilega held að ég haldi bara að ég líti út fyrir að vera mjórri en ég er.
Alltaf sami hrokinn í mér. Málið er nefnilega að hér er ég 102 kíló en engu að síður í hné háum leðurstígvélum og Boss kjól (einn af 5 flíkum sem ég ætla að kaupa í ár) og mér finnst sjálfri ekki eins og ég sé 102 kíló. Ef mér væir ekki svona illt í hnjám og baki myndi ég í alvörunni bara segja fokk it og gleyma þessu vafstri. En mér er illt og ég verð að taka á því.
En djöfull var gott að vita að það eru fleiri hlussur þarna úti en bara ég.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli