fimmtudagur, 10. apríl 2003

Ég fór til ljósmóður í mæðraskoðun í fyrsta sinn í gær. Það var frábært. Hún gaf mér allskonar bækur og bæklinga og myndir og ég æstist öll upp við að frétta það að maður á að telja frá egglosi sem þýðir að ég er komin rétt um 12 vikur á leið, ekki 10 eins og ég hélt. 12 vikur, það er þriðjungur tímabilsins. Hún sagði að u.þ.b. frá og með næstu viku ætti ég að hætta að vera svona þreytt og vonandi að tilfinningasveiflurnar fari að jafna sig. Barnið er orðið nokkuð manneskjulegt, ég fékk allskonar myndir af þróuninni og það sem er búið að gerast á síðustu vikum er með ólíkindum. Það er ekki nema von að ég sé svona þreytt. Það er allt tilbúið, nú eiga bara augu, tennur og ytri kynfæri eftir að þróast. Allt annað er komið, það er bara ógnarsmátt. Ég get engan vegin þagað yfir þessu. Ég er svo glöð að ég vil að allir viti þetta og gleðjist með mér. Enda er ég komin yfir hættulegast tímabilið núna. Þannig að það er kannski í lagi að fara að kjafta (meira) frá.

Ljósmóðirin vildi senda mig í eitthvað sem heitir NT mæling. Þá er hnakkaþykkt barnsins mæld og út frá því er hægt að sjá hvort eitthvað sé að barninu. Því miður þá er einungis hægt að gera þetta á einhverjum nokkrum dögum í meðgönguferlinu og ég verð akkúrat úti á meðan á því stendur. Ég vil náttúrulega gera allt sem hægt er en hún sagði að þetta væri kannski ekki það allra mikilvægasta. Ég á svo að fara til hennar aftur 30. apríl og þá getum við pantað tíma í 19 vikna sónar. Ég næ að fara í hann áður en ég fer út. Svo verð ég bara að fara aftur úti svo að Dave geti fengið að sjá líka. Hann er nú svo spenntur yfir þessu.

Ég sit hérna í enskutíma og það eina sem ég get hugsað er “dagurinn í dag og svo er þetta eiginlega búið.” Ekki á morgun heldur hinn verðum við aftur saman. Ég get ekki verið án hans mikið lengur. Þetta er óbærilegt, sérstaklega þegar svona á stendur.

Engin ummæli: