sunnudagur, 10. ágúst 2003

Jæja þá er bara komið að því að fara heim aftur eftir mikið prýðisgóða dvöl hér á Íslandi. Ég hitti alla sem ég þurfti að hitta (nema Mogensen, jävla!) og gat stolt sýnt bumbuna mína þannig að ég fer sátt heim aftur. En ég er líka búin að ákveða að ég kem ekki aftur á klakann án mannsins míns. Ég hlakka strax orðið til næsta sumars þegar ég kem með hann og Babbie Jones og fer með þá hringinn og sýni allt sem fallegast er hér á landi hér. Dave hefði t.d. skemmt sér konunglega í gær; honum hefði þótt skemmtilegt og skrýtið að grilla í mígandi rigningu. Honum hefði þótt fyndið að standa í fjörunni í kæfandi grútarlykt og syngja sjómannalög. Honum hefði þótt frábært að fara í partý þar sem allir sátu í hring og sungu. Hann hefði sjálfsagt líka haft gaman af því að fara á ball þar sem elsti maðurinn var 76 og sá yngsti 14. Og báðir jafn fullir.

Ég þarf að þjálfa upp í mér spjallið. Ég bara er ekki með svona spjallgen í mér. Maður hittir fólk sem maður hefur að sjálfsögðu ekki séð lengi lengi, en ég kemst bara ekki lengra en:"Nei hæ! hvað segir þú gott?" Svo þegi ég og allir halda að ég sé svona hrokafull. Ef ég reyni að neyða sjálfa mig til nánara spjalls þá fer ég bara að segja bláókunnugu fólki frá mínum innstu hjartans málum þannig að ég virka annaðhvort sérlega einföld eða pínlega opin. Ég bara veit ekki hvernig maður fer milliveginn. Kannski er bara allt í lagi að vera svona. Kannski líður mér alltaf vel af því að á mér hvíla engin leyndarmál eða vandræðalegheit, ég burðast ekki um með neinar byrðar. Hvað um það, í gærkveldi á Hafnardögum hefði ég vilja tala meira við fullt af fólki en fólk var svo fullt að það var ekki hægt. Ó vell, næsta sumar verð ég bara full líka og næ að tala við fólk þá.

Engin ummæli: