mánudagur, 4. ágúst 2003

Mamma mín á alveg forláta baðvog. Fallega hannaðan grip sem virkar dálítið grennandi vegna framúrstefnulegs útlits. Sjálf á ég ekki vigt og er eiginlega alveg sama. Ég veit að ég er dálítið væn þessa dagana en finnst ég löglega afsökuð. Engu að síður þá var eitt af því fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim var að stíga á téða vog og kanna ástandið. Og viti menn, ég hef einungis þyngst um tvö kíló síðan að barnið kom undir, fyrir einum sex mánuðum! ég á tvímælalaust meira inni en það, barnið sjálft vegur orðið kíló núna. Ég hlýt því að hafa grennst sjálf fremur en hitt. Ég verð greinilega að herða við mig í ísátinu. Foreldrar mínir eru aftur á móti algjerlega háðir vigtinni. Hún er ekki inni á baði, heldur stendur hún á miðju stofugólfinu þar sem þau óttast hana og dýrka svona eins og hjáguð einhvern. Nokkrum sinnum á dag stíga þau á hana og í hvert sinn bærast varir þeirra í hljóðri bæn um hagstæða tölu. En eins og aðrir guðir þá verður hún sjaldan við bænum þeirra og niðurlút stíga þau af henni í þeirri vissu að það eina sem þeim tekst að safna af einhverju viti eru fleiri aukakíló. Ég skil eiginlega ekkert í þeim. Ég held einmitt að mamma mín og pabbi séu bara með myndarlegra fólki sem ég hef séð.

Engin ummæli: