þriðjudagur, 27. apríl 2004

Þetta er búin að vera skrýtin helgi. Mamma og pabbi komu á föstudaginn, í glampandi sól og sumar og við stússuðumst um í Wrexham og svo í Chester föstudag og laugardag. Yndislegur tími og svo æðislegt að sjá mömmu og paba með Lúkasi. Hann á góða að þar. Hann sjálfur er búinn að vera að taka inn pensillín í viku til að slá á sýkingu og er á sama tíma búinn að vera að þróa með sér ofnæmi fyrir efninu. Á laugardagskvöldið fórum við Dave út og nýttum barnapíurnar en þegar við komum heim voru mamma og pabbi í hálfgerðu sjokki því Lúkas hafði hlaupið upp í skrýtnum blettum sem hurfu reyndar strax en voru nógu skrýtnir til að gera þau hrædd. han náði líka að klóra kinnina sína þannig að það blæddi all svakalega úr henni. Ég og Dave vorum hálf full og vorum ekkert stressuð yfir þessu. Á sunnudagsmorgun hinsvegar fær hann bráðaofnæmiskast eftir að fá lyfið sitt. Hann varð eldrauður og svo hljóp hann upp í hvítum blettum, svo bólgnaði allt andlitið og hann leið út af. Ég hélt að hann væri dáinn. Pabbi æpti á Dave að fara með hann upp á spítala og alla leiðina þangað pössuðu mamma og pabbi að Lúkas væri vakandi. Ég held að ég og Dave hafi verið hálf gagnslaus í einhverju sjokki. Á bráðavaktinni fékk hann lyf sem slógu á ofnæmiskastið og svo vorum við send upp á barnadeild þar sem við áttu að gista um nóttina. En um fimmleytið var han orðinn alveg eðlilegur aftur þannig að við máttum fara heim og áttum að koma aftur morguninn eftir. Við vorum svo í allan gærdag í rannsóknum og pensíllínofnæmi er það allra líklegasta sem þeir finna út sem stendur. Við erum núna komin með húðsjúkdómafræðing og næringarfræðing í okkar lið og vonandi að það sé bara pensillín sem hefur þessi áhrif á barnið. Hann er alltaf jafn góður og kátur, lætur eins og ekkert hafi gerst. Við foreldrar hans og amma og hans og afi eigum hinsvegar örugglega eftir að vera lengi að jafna okkur. Ég sef lítið, er alltaf að athuga hvort hann andi ekki. Ég er bara svo glöð yfir því að mamma og pabbi voru hérna hjá okkur, þetta hefði verið helmingi erfiðara án þeirra.

Ég er að horfa á litla drenginn minn sem situr hérna hjá mér í ömmustólnum sínum og nagar snudduhringinn sinn og ég get ekki hugsað annað en hvílíkt kraftaverk hann er. Og ég hugsa að ég hreinlega springi úr ástinni sem ég ber til hans. Og ég bið til guðs um að hjálpa mér að vernda hann.

Engin ummæli: