fimmtudagur, 8. apríl 2004

Ég keypti mér í fríhöfninni á leiðinni heim tvöfaldan geisladisk með öllum bestu lögunum hans Vilhjálms Vilhjálmssonar. Mikið ægilega skemmtilegur diskur sem ég og Lúkas erum búin að dansa við í stofunni síðan að við komum heim. Skrýtið samt. Ekki hefði ég keypt og hlustað á þennan disk byggi ég á Íslandi. Mér finnst Vilhjálmur alveg skemmtilegur en ég hefði getað gert margt betra við tvöþússara. Svona gerist þegar maður verður "ex-pat" eins og það heitir á engilsaxnesku. Maður verður tárvotur við tilhugsunina um Ora-grænar. Sem eru, ef maður veltir því fyrir sér, lélegustu baunir sem hægt er að fá því þær eru niðursoðnar en ekki ferskar. Ein með öllu veldur því að maður grætur í uppvaskið. Samt er eiginlega ekki hægt að fá eina með öllu lengur, brauðið er ristað og allt útatað í kartöflusalati. Dave minn ber endalausa virðingu fyrir Íslendingnum í mér og er stoltur af því að sonur sinn sé "Keltneskur Víkingur". En það er samt voðalega erfitt að útskýra fyrir honum af hverju mér finnist "S.O.S ást í neyð" skyndilega vera lag laganna. Hann bara heyrir ekki hvað er svona gott við lagið. Kannski að hann skilji þetta ef við flytjum einhverntíman til Íslands og hann fer að gráta þegar Tom Jones byrjar að baula "Green, green grass of home". Ég passa þá líka að það sé til nóg að af ristuðu brauði handa honum.

Engin ummæli: