föstudagur, 25. júní 2004

Það er föstudagur í dag. Við Lúkas fórum í sund og svo erum við búin að vera að leika okkur. Ég er búin að búa til pizzuna sem verður í kvöldmatinn og ég býst við að borða hana fyrir framan sjónvarpið á meðan að Dave og ég horfum á Frakkland vs. Grikkland. Eftir það kúrum við sjálfsagt í sófanum í smástund áður en við förum að sofa, Dave þarf að vakan klukkan sex til að fara í vinnu í fyrramálið og ég þarf að sjá til þess að Lúkas sé sáttur. Allt í allt ljómandi fínn dagur. Mig langar geðveikislega út á djammið. Mig langar til að mála mig í klukktíma og drekka bjór á meðan. Mig langar til að hlusta á spænska pönkið mitt og hitta svo Ástu. Mig langar til að fara í partý og segja dónalega brandara og hlæja svakalega. Mig langar á 22 og dansa til klukkan sex. Mig langar til að vera svo full að ég haldi að ég sé ægilega sjarmerandi en sé í raun frekar subbuleg. Mig langar til að reykja einn og hálfan pakka og mig langar til að vakna þunn og borða slömm og velta því fyrir mér afhverju ég eigi ekki kærasta. Skrýtið þegar stundum mann langar til að gera það sem að maður hélt að maður vildi aldrei, aldrei, aldrei gera aftur.

Engin ummæli: