Nú ríkir mikil gleði hér í Veils. Við (já, við) erum í kvöld orðin 6 Nations Champions! Rugby, sem er óneitanlega þjóðaríþrótt Veilsverja, hefur í kvöld skilað 6 nations titlinum hingað. Við kepptum við England, Írland, Skotland, Frakkland og Ítalíu og unnum alla okkar leiki. Þvílík gleði! Þvílík hamingja! Stemmningin er ólýsanleg, ímyndið ykkur ef Ísland hefði unnið evrópumeistaratitilinn í handbolta. Þetta er svona svipað.
Á sömu nótum ríkir mikil gleði hér á heimilinu. Ég keypti fyrir nokkru síðan tvær bókahillur frá IKEA og lét senda mér hingað heim. Húsið mitt er agnarsmátt og í sárri þörf fyrir geymslupláss og ég var svona líka ánægð þegar ég fann loksins þessa skápa sem pössuðu eins og sniðnir í eitt hentugt horn. Ég fékk þá semsé senda hingað heim eftir smá vesen við að finna dag sem hentaði mér og IKEA. Svo upphófst uppsetning. Ég hafði mælt plássið upp á millimetra, lengd, breidd og hæð. En hafði ekki gert mér grein fyrir að eftir að hafa sett þá saman á hliðinni hafði ég ekki lofthæð til að reisa þá aftur við. Ég endurskipulagði stofuna til að athuga hvort þeir kæmust fyrir þar inni en nei, það eina sem kom út úr því var að ég fann fjórar snúrur flæktar saman fyrir aftan sjónvarpið sem ekki voru tengdar í neitt. Smá tiltekt þar. Taka tvö næsta kvöld. Ég reif eina aftur niður og setti upp þar sem hún átti að standa. Snéri öllum hillum öfugt. Taka þrjú. Reif báðar aftur í sundur og setti saman þar sem þær áttu að standa. Sneri einni hillu öfugt en gefst upp. Fokkings IKEA! Ég hélt að þetta ætti að vera idjótprúf! Kemur í ljós að ég er ekki idjót og bara ræð ekki við þetta. Gefst upp og fer að sofa. Ég klára þetta svo loksins í gærkveldi og ég græt, græt af gleði, ég er loksins búin að þessu, og skáparnir smellpassa. Ef þú pírir augun gætirðu haldið að smiður hafi gert þetta. En ég fer aldrei aftur í IKEA.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli