þriðjudagur, 11. mars 2008Því miður þá virðist Ysgol-Y-Rhos sem er skólinn hans Lúkasar ekki halda úti eigin heimasíðu, en það má nálgast upplýsingar um hann á heimasíðu Wrexham bæjar þar sem ég fann meðal annars þessa mynd úr skólanum hans, reyndar tekin fyrir nokkrum árum síðan. Foreldrar þessara barna og börnin sjálf munu hafa verið námuverkamenn og refsað harðlega ef þau reyndu að tala velsku. Á þessum árum var engin leið að komast áfram í lífinu ef velska var þitt fyrsta tungumál, hana töluðu bara fátæklingar. Svoleiðis tókst systematísk útrýming tungunnar nánast að afmá hana úr lifandi, daglegu lífi. Sem betur fer horfir nú til betri vegar og það hefur heldur betur orðið umskipti í hugum fólks. Nú er það "betra" fólk sem talar velsku og er merki um menntun og verður til betri stöðuveitinga innan opinbera geirans. Wales búar eru mjög skiptir í afstöðu sinni til enskra ólíkt því sem gerist í t.d. Skotlandi þar sem allir hata Englendinga. Sumir Walesverjar telja sig janfvel vera Breta, frekar en Walesbúa. Svo má reyndar líka finna fólk hérna sem viðurkennir að ef England spilaði fótbolta við 3. ríki Hitlers þá myndu þeir þurfa að halda með strákunum hans Hitlers einungis í þeirri von a enskir tapi! Skemmtilegt er svo frá að segja að Jones nafnið er vinsælasta eftirnafnið hér og í den tid voru menn kallaðir Jones og svo vinnuheitið. T.d. Jones the Barkeep, Jones the blacksmith, Jones the weaver, o.s.f.v. Í þessari hefð er hér í Wrexham hægt að biðja Jones the computer að koma og setja upp nettengingu.

Ég er alltaf að verða hrifnari af landi og þjóð, hér er óskaplega fallegt og skrafhreifnara fólk hef ég aldrei hitt, maður er allstaðar stoppaður til að spjalla, af fólki sem skv. íslenskri skilgreiningu væru ókunnugir. Hér er líka hæsta ratío af táningsþungunum í Evrópu, veit ég ekki hvort það er líka vegna þess hve fólkið er vingjarnlegt! Diolch y fawr a croeso y cymru.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ELSKA svona fróðleiksmola!!

Nafnlaus sagði...

Sammála móður þinni!
kv. Ólína