þriðjudagur, 21. júlí 2009Lúkas er loksins kominn í sumarfrí. Ég, öfugt við flesta foreldra sem eru í mesta klandri við að redda barnapíum yfir sumarið, er hæstánægð með að hann sé í fríi. Vinnutíminn minn í samblandi við að eiga tengdamóður sem er æst í að passa þýðir að þessar vikur eru miklu auðveldari fyrir mig en þegar ég þarf að koma honum í skólann á réttum tíma, í straujuðum skólabúning með hollt nesti í töskunni. Ég get farið beint í lyftingar og hlaup og klárað það fyrr á morgnana og hef þar af leiðandi miklu lengri tíma til að stússast í eldhúsinu og til að leika við Lúkas. Í morgun bjuggum við til eggjaköku í morgunmat og svo hannaði ég bauna-túnfisksalat sem ég ætla að prófa í hádegismat. Það er allt fullkomið fyrir utan að hitabylgju sumarið mikla hefur núna breyst í týpískt breskt sumar: rigning, rigning, rigning.

Við Kelly náðum reyndar að ná síðasta sólardeginum og fórum með krakkana í lautarferð í Erddig-skóg. Það var heljarinnar stuð, fjallganga sem endaði í buslugangi út í læk. Ben er með Lúkasi á myndinni. Sést vel hvað Lúkas er miklu stærri, það er mánuður á milli þeirra, og Ben er sá eldri. Svona eru líka allir skólafélagar Lúkasar, hann er höfði og herðum hærri en þeir allir.

Engin ummæli: