sunnudagur, 26. júlí 2009
Við fórum í sund í morgun enda hellidemba úti og lítið gaman við að vera við í því. Sundlaugin í Plas Madoc er með ölduvél og við Láki skemmtum okkur konunglega við að æfa okkur fyrir að vera í alvöru öldugangi í næstu viku. Verst bara þetta með skítugu bretana sem enn þvertaka fyrir að sturta sig áður en farið er útí. En það er önnur saga. Þegar heim var komið vantaði mig eitthvað djúsí en létt í hádegismat og ákvað að prófa þessa uppskrift frá Gino D´Campo enda átti ég allt til í hana. 2 portobello sveppir sneiddir og 250 g venjulegir sveppir, steiktir í smá ólívuplíu með einum sneiddum blaðlauk. 70g rocket, 50g sólþurrkaðir tómatar og 100g feta hrært út í sveppina og svo allt sett í form sem smá salt og pipar. Ég bætti reyndar við nokkrum svörtum ólívum bara af því að mér finnast þær svo góðar. Svo eru sex egg hrærð saman og hellt yfir sveppablönduna, parmesan rifinn yfir og svo bakað í 25-30 mínútur við 200 gráður. Borið fram með rocket salati. Nammi namm, þetta fannst mér góður hádegismatur. Ég nota orðið einungis sílikon form, þau eru æðisleg, ég endurtek æðisleg. Ekkert þarf að smyrja og ekkert vesen. Ég myndi ráðleggja öllum sem elda eða baka reglulega að kaupa nokkur svoleiðis. Ég myndi allavega ekki nota lausbotna form í þessa af því að eggin leka út um allt. En hvað um það, þar sem við sátum við át og spjall kom til tals að ég er í fríi á morgun. Lúkas varð ægilega kátur með það og fór að plana allskonar Legó byggingar með mér. Dave sagði eitthvað um að það væri ekki réttlátt að hann þyrfti að fara í vinnu á meðan við Lúkas fengum að vera heima að leika okkur. Ég sagði við Dave að life isn´t fair og þá tók Lúkas undir og sagði alvarlegur í bragði "and life isn´t chocolate!" Mikil spekingsorð sem ég þarf að muna.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli