fimmtudagur, 24. september 2009


Í dag hef ég lést um akkúrat 40% af því sem ég vil léttast um. 800 grömmin sem yfirgáfu svæðið þessa vikuna ýttu mér að þessari fallegu mælistiku. Ég sit hérna og stari á excel spreadsheet-ið mitt sem ég fylli inn samviskusamlega í hverri viku (hvað heitir spreadsheet á íslensku?) og er svona nett að velta fyrir mér hvort ég sé farin að leggja of mikla áherslu á vigtina. Ef lykillinn að velgengninni er að breyta hugsun og hegðun fremur en að vera í megrun þá er það kannski ekki nógu sniðugt að vigta sig 5 sinnum á dag og skrásetja svona hvert gramm í hverri viku. Ég nebblega verð að viðurkenna að mig er búið að langa alveg svakalega í megrun núna. Bara svona í smástund áður en ég kem heim svo ég nái örugglega mini-takmarkinu sem ég er búin að setja mér fyrir heimkomuna. Bara svona smá megrun þar sem maður borðar bara 18 egg alla vikuna og léttist um 7 kíló á viku, bara svona smá, plís,plís leyfðu mér að fara í megrun! En nei segi ég við sjálfa mig softly, softly catches monkey, ef ég fer í einhverja öfga núna þá spring ég á limminu og 30 vikna vinna og 40% af takmarkinu verða til einskis af því að 18 egg og ekkert annað er ekki eitthvað sem hægt er að halda út til lengdar. Þannig að ég er búin að gera díl við sjálfa mig. Ég má halda áfram að vigta mig svona öfgakennt þangað til að ég hef náð takmarki mínu hvað vigt varðar. Það má vel vera að ég verði alltaf að vigta mig svona oft bara til að passa að ég haldi mig við lífstílinn. Ég má setja mér svona mini-takmark en ég má ekkert gera öfgakennt til að ná þeim og ef ég næ þeim ekki þá má ég ekki gefast upp. Ég verð líka að setja mér markmið sem hafa ekki neitt með vigtina að gera til að minna mig á að þetta snýst ekki um að vera 71 kíló heldur um að vera fitt og hraust. Í þessari viku er það að hlaupa í 5 mínútur stanslaust. Þetta kemur allt með kalda vatninu.

3 ummæli:

Harpa sagði...

já hérna hér. Hálfnað verk (svona nánast) þá hafið er! Mér finnst svo stutt síðan þú byrjaðir og þú ert nánast háfnuð. Þetta er bara ótrúlegt!
Vinkona mín var að segja mér að dagmamman hennar vigtar sig alltaf kvölds og morgna. Hún barðist lengi við kílóin en náði síðan af sér 40 - 50 kílóum fyrir nokkrum árum. Hún er svo hrædd ennþá um að bæta þeim á sig að hún stígur svona oft á vigtina. Ég held nú samt að þó það sé í lagi að fylgjast með þyngdinni að þá sé þetta kannski gengið of langt. Held einmitt eins og þú segir að á meðan maður er hraustur og líður vel þá kemur hitt örugglega bara sjálfkrafa!

Og í dag er einn mánuður.......

Guðrún sagði...

Ég sé ekkert að því að vigta sig tvisvar eða oftar á dag. Maður lítur oft á dag í spegil til að athuga föðrun eða greiðsluna! Ég vigta mig tvisvar á dag ( fylgir tannburstun) þó svo það stjórni ekki lífi mínu.
Þú ert MEIRISHÁTTAR.

Nafnlaus sagði...

FRÁBÆRT hjá þér. 40% ég veit að þér mun takast þetta núna, ég er alveg viss :-) Ég er líka alltaf að vigta mig ....er alltaf búin að ákveða að vigta mig bara einu sinni í viku en geri það síðan á hverjum degi. Og ekki fara í megrun það virkar ekki er bara rugl. Þú ert búin að ná svo frábærum takti núna í með fallegum, góðum og hollum mat :-)
Go girl :-)
Love, Ólína