sunnudagur, 20. september 2009


Við Lúkas skemmtum okkur konunglega í Chester í gær, skildum Dave eftir heima með kvef og kverkaskít og tókum lestina upp úr hádegi. Röltum í nokkrar búðir, skoðuðum í þaula hús sem var byggt 1508 og sátum svo eins og fínt fólk á Latino café og drukkum skinny latte og kók. Það er voða gaman að fara með Láka út að borða, hann situr alveg rólegur og spjallar bara. Svo fórum við í dótabúð og skoðuðum allt dótið og löbbuðum svo út ÁN þess að kaupa neitt og ÁN þess að einhver væri með væl. Sem var alveg æðislegt. Kannski að litla frekjumýslan mín sé að þroskast og læra að stundum fær maður ekki allt þó svo maður eigi mömmu sem er með stanslaust samviskubit og er alltof undanlátssöm. Við fórum líka inn í Boots þar sem ég fann stuðningsbindi fyrir hnéð. Svaka pakkning en gerir líkamsræktina óneitanlega auðveldari; heldur voða vel við hnéð þannig að ég er ekki stanslaust með óróa yfir því að hnéð smelli í sundur. Svo er ég búin að ákveða að panta tíma hjá sérfræðing. Það hlýtur að vera hægt að gera eitthvað.
Þessi sunnudagur er svo búinn að vera alveg svakalega góður svona fyrir mig. Sunnudagar eru vanalega frítt spil, ég bara borða það sem mig langar í. Til að byrja með raðaði ég í mig öllu því sem ég hafði "misst af" yfir vikuna. En fattaði svo að snickers verður alltaf til, það er svo sem engin ástæða til að panikka yfir því. Svo fór ég að vera aðeins meira vandlát og bjó til "worth it" listann minn; sætindi sem eru það góð að þau eru þess virði að eyða í þau kaloríum. Og hélt mig við hann. En svo núna síðustu tvo eða þrjá sunnudaga hef ég bara fengið mér hnetur og döðlur. Fór svo út í C0-Op núna áðan til að ná mér í "eitthvað gott" en bara langaði ekki í neitt. Hringsnérist um búðina og grandskoðaði hillu eftir hillu af jólasúkkuði (yes you heard me!) Ég minnti sjálfa mig á að það væri heil vika þangað til ég mætti næst borða nammi, en svaraði sjálfri mér til að þetta drasl yrði örugglega enn til eftir viku þannig að það væri nú allt í lagi, fyrir utan að ég borða "eitthvað gott" alla vikuna. Ég fæ grískt salat, og jógúrt með hnetum og þýsk brauð og kjúklingavefjur og eggjakökur og perur og og og ... allt alveg ógeðslega gott. Væri bara ekki alveg í lagi bara að sleppa sætindunum ef mig í alvörunni langaði ekki í? Ég greip reyndar lítið stykki af camembert sem ég ætla að borða með kexi og sultu á meðan ég horfi á rómantíska gamanmynd í kvöld en það er nú mikið í lagi. Það er nefnilega allt í lagi með mig. Ég er kannski ekki alveg laus við geðveikina en ég kalla þetta nú að hafa allgóða stjórn á henni.

1 ummæli:

Guðrún sagði...

Dúllan mín! Þú komst út úr Co-oppinu ÁN súkkulaðis og Lúkas út úr dótabúð ÁN dóts. Þið eruð bæði greinilega batnandi menn og batnandi mönnum er best að lifa!!