þriðjudagur, 10. nóvember 2009


Það er búið að vera svakalegt verkefni núna í rúma viku að finna bjartýnisröndina mína. Ég er búin að þykjast og þykjast. En að mestu leyti hefur mér mistekist. Ég er sorgmædd og leið og bara ekki í stuði. Ég var með hatur í hjartanu alla síðustu viku, ég var að borða rétt og gerði æfingarnar mínar en ég gerði það allt með þeirri hugsun að ég gæti bara ekki beðið eftir sunnudeginum og að þá ætlaði ég sko að éta þangað til ég gubbaði. Sem ég og gerði. En það er ekki hægt að gera þetta með þeim hugsunarhætti. Ég verð að njóta vikudaganna jafn mikið eða helst meira en ég nýt sunnudaganna. Og ég gerði allt sem vanalega hjálpar; skoðaði myndir, las blogg, horfði á Biggest Loser, las uppskriftir, gerði extra æfingar, og ég borðaði af matseðli, og ég féll ekki en ég gerði þetta allt með hatri. Ég hataði að þurfa að vigta, telja og skrá. Ég hataði að ég fái bara ekki að vera venjuleg manneskja. Og ég sver að hatur vegur 2 kíló því það var það sem ég hafði bætt á mig á mánudaginn. Upp og niður, upp og niður, ég og vigtin. Og ég skil ekkert í þessu. Ég finn hamingjuna og vellíðunina sem fylgir því að geta hlaupið með Lúkasi. Ég finn hamingjuna í vöðvunum á upphandleggjunum og í kálfunum. Ég finn hamingjuna í að geta labbað inn í Next og keypt mér hvað sem er þar. Ég finn hamingjuna í smakka nýjan og spennandi mat nánast daglega. Ég finn hamingjuna í þessari ofgnótt af upplýsingum sem ég bý yfir núna. Og engu að síður það eina sem ég vil er súkkulaði. Og ég veit að hamingjan er ekki þar.
Ég er semsagt dópisti. Sykurfíkill. Og ég á aldrei eftir að losna við þetta. Það eina sem ég get gert þegar andartak, klukkustund, dagur eða jafnvel vika kemur þar sem ég þykist ekki muna hvar hamingjan býr er að bíta á jaxlinn og vona að það líði hjá eins fljótt og mögulegt er. Vona svo með öllu hjarta að tímabilið þar sem ég er í takt við heilbrigða lífshætti standi yfir sem lengst. Og sætta mig við að ég er ekki venjuleg manneskja. Og muna að stundum er það líka bara gott.

1 ummæli:

Asta sagði...

Alltaf í suður!