mánudagur, 23. nóvember 2009
Nú er komið svo að það er tími til komin að hætta sér í eina netta verslunarferð í The Trafford Centre. Kelly er alveg æst í að við tökum dag úr lífinu og förum þangað saman, eyðum deginum í að versla jólagjafir og aðra þessháttar kvenlega tómstundariðju. Við erum því búnar að fá frí í vinnunni á föstudaginn og ég er á fullu að skrifa niður lista. Það er bara tvennt sem er að. Ég hef ekki hugmynd um hvað ég á að kaupa handa strákunum mínum, hvorugur biðja þeir um neitt, og ætlast bara til að mér detti eitthvað ægilega sniðugt í hug. Hitt sem er verra er að síðasta og reyndar eina skiptið sem ég hef farið í Trafford Centre þá var það ekki ferð til frama. Dave hélt að hann væri að gera voða gott við mig þegar hann planaði ferð þangað með mig; heill dagur í verlsunarmiðstöð og ég mátti gera þar það sem mig lysti. Ég labbaði þangað inn, fékk vægt taugaáfall og heimtaði að fara aftur heim. Greyið Dave vissi ekki hvaðan sig stóð veðrið, hvað hann hafði misskilið þarna. Það kom þá í ljós að ég alveg hata verslunarmiðstöðvar. Ég vil bara vera niður í bæ, í fersku lofti og ég vil helst ekki hafa of margar búðir heldur. Mér fallast bara hendur ef það er of mikið val. Hann lærði mikið um mig þann daginn. En Kelly er svona ægilega spennt að fá að fara í svona "girlie" ferð með mér, og ég get ekki skemmt þetta fyrir henni. Þannig að ég ætla að vera ægilega skipulögð, skoða hvaða búðir eru þarna á netinu og gera áætlun. Hvert ég ætla að fara og hvað ég ætla að kaupa. Þannig að það er engin hætta á taugaáfalli. Og það er líka John Lewis þarna þannig að vonandi fæ ég bara að vafra þar um góðan hluta dagsins. Ég eeeeelska John Lewis. Kannski að maður komist í svakalegan jólafílíng við að fara í pílagrímsferð í Mekka kaupóðra.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Hvar er The Trafford Centre?
Manchester.
Mín reynsla af Trafford center er svipuð og þín. Ég lét eitt skipti duga, mér fannst engar búðir þarna. Af hverju farið þið ekki niður í bæ í staðinn, svona fyrst þið eruð komnar til Manchester á annað borð? Það er pottþétt búið að opna jólamarkaðinn (svaka stemning) og svo er fullt af skemmtilegum búðum þar - bæði keðjum og indepenent litlum flottum.
Skrifa ummæli