föstudagur, 11. desember 2009



Jólatónleikar Ysgol Maes-Y-Mynnedd fóru fram í dag með glæsibrag og þá ekki síst fyrir söng og danshæfileika Lúkasar. Hann er alveg með eindæmum góður Betlehem þorpsbúi. Verra er hvað ég er með eindæmum lélegur ljósmyndari. Ég náði ekki einu einustu af honum uppi á sviði og öll nærskot eru hreyfð og yfirlýst. Verð bara að játa mig sigraða á því sviðinu. Þetta var svo gaman, öll börnin svo sniðug og skemmtileg og þau höfðu greinilega lagt mikla vinnu í verkefnið. Ég var með hjartað í buxunum yfir búningnum hans Lúkasar. Þegar ég fékk skipunina frá skólanum um að ég þyrfti að gera hann sjálf vantaði mig mömmu alveg svakalega til að hjálpa til. Hann fór að lokum í klipptu koddaveri með marglitt belti um sig miðjann og jólaviskustykki á hausnum. Og meira að segja Arafat hefði verið til í að fara í gallann. Þetta tókst bara ljómandi vel. Og Lúkas er núna harðákveðinn í að safna skeggi. Honum finnst hann vera svaka flottur með skegg. Ég var enn sett í aðstöðu þar sem ég þakkaði öllum góðum vættum fyrir að vera minni. Við foreldrarnir vorum látin sitja á barnastólum og ég man hvað það var hræðilegt í fyrra. Ég hélt niður í mér andanum allan tímann í angistarkasti yfir því að ég myndi brjóta stólinn, gat mig hvergi hrært með hálfa rasskinn á stólnum og hina hangandi yfir gólfinu, hnén æpandi af sársauka og hver einasta fitufelling kreppt saman þannig að ég líktist helst mannstórri marsípan köku. Ekki fallegt. Í dag settist ég bara niður, alveg róleg og naut sýningarinnar. Þvílíkur munur. Og það er einmitt þessir litlu hlutir sem skipta svo ofboðslega miklu máli.

2 ummæli:

Guðrún sagði...

Það,er augljóst á þessari mynd, frá Betlehem, hver er faðir þessa drengs.

magtot sagði...

Ætlaði einmitt að segja það :) Hann er afar líkur pabba sínum með þetta skegg ;)