föstudagur, 29. janúar 2010


Eftir vonbrigðin á vigtinni í gær lagðist ég í nákvæmar rannsóknir. Kalóríur inn og kalóríur út, eins einföld og grunnfræðin eru þá er alltaf hægt að betrumbæta vísindin. Hvaða kalóríur inn og hverjar skulu út? Það liggur í augum uppi að það er betra fyrir heilsuna að borða 2000 kalóríur af próteini, flóknum kolvetnum og góðri fitu en 2000 kalóríur af sykri og hvítu hveiti. Það er auðveldara fyrir líkamann að vinna betur úr hollari fæðunni. En hvernig er best að skipta á milli próteins og kolvetna? Það kannast allir við kolvetnislausa kúra eins og Atkins og gífurlegt fitutap og grey kolvetnin hafa fengið frekar slæmt orðspor undanfarin ár. Svona dálítið eins og fita fyrir 20 árum. Fitutapið skapast, ef maður má einfalda fræðin, vegna þess að líkaminn neyðist til að nota fitu sem eldsneyti fremur en sykurinn úr kolvetnum og að auki þess skapar prótein hærri "hita" bruna. En við erum ekki sköpuð til að sleppa kolvetnum og eins og allir "megrunarkúrar" er óðs manns ráð að reyna að skera lífsnauðsynleg fæðuefni algerlega úr mataræðinu. Það heldur það enginn út til lengdar. Til þess að finna út hvað ég á að gera komst ég að því að ég er því miður "endomorph" líkamstýpa frá náttúrunnar hendi. Ég er mjúk og lin og með grófa beinabyggingu og það er "þungt í mér pundið". Ég þyngist auðveldlega og á mjög erfitt með að létta mig. Kolvetni eru þessvegna ekki besti vinur minn. Enda það efni sem ég er fíknust í. Ég á því að reyna að fara eftir 40-40-20 reglunni og koma eins mikilli cardio hreyfingu að til að halda brunanum gangandi. 40% þess sem ég neyti á að vera prótein, 40% kolvetni og 20% fita. Stærðfræðin er einföld; í einu grammi af próteini og í einu grammi af kolvetni eru fjórar kalóríur. Ef það eru 20 grömm af próteini í því sem þú ert að borða eru sem sé 80 kalóríur. Í fitu eru hinsvegar 9 kalóríur. Þannig að til að fá 1600 kal yfir daginn skipt niður 40-40-20 þá á ég að fá 160 g prótein, 160 g kolvetni og 35 g fita. Ég klauf niður daginn í dag og ég kem til með að borða 63.5 g prótein, 212.7 kolvetni og 33.6 af fitu. Kolvitlaust sem sagt. Og ef vísindin eru rétt og sönn þá útskýrir þetta hversvegna ég léttist svona hægt. Þrátt fyrir að borða flókin og góð kolvetni þá borða ég of mikið af þeim. Og það þrátt fyrir að halda mig við rétt kalóríumagn.

Þetta er heilmikil áskorun. Ég get talið kalóríur í svefni. En að þurfa að skipta réttlátlega niður í fæðuefnin líka, reikna út grömm og hlutföll, það er eitthvað alveg nýtt. Og ég þarf greinilega að skoða matseðillinn minn með nýjar prótein uppskriftir í huga. Nýtt og spennandi! Jess! Ég er uppfull af gleði yfir þessu! Nú verður næsta vika skemmtileg. Tilraunastarfsemi og útreikningar. Og svo sjáum við hvað gerist á vigtinni. Every day without learning something new is a day wasted.

3 ummæli:

Guðrún sagði...

Vá....þvílík fræði og þvílík stærðfræði. Gott að þú ert góð í reikningi!!
Ég verð greinilega að senda þér harðfisk. Hann hefur vinninginn hvað prótein varðar á listanum sem ég á.
68.1 g af próteinum og 0.0 g af kolvetnum!

Nafnlaus sagði...

juminn eini Baba þú ert svo "fysiologisk" í fræðunum að ég kikna hreint í hnjánum!

knús
H

Harpa sagði...

Þú ert ótrúleg. Bara kafað eins djúpt og hægt er. Þessi ,,dedication" á eftir að skila sér. Og svo er nú bara bónus að fá að æfa sig í reikning í leiðinni ekki satt?