fimmtudagur, 28. janúar 2010

Ég sit hérna og klóra mér í hausnum. 400 grömm upp og ég skil ekki alveg afhverju. Á miðað við hæð, þyngd og aldur er "Resting Metabolic Rate" þ.e. kalóríu fjöldinn sem ég brenn á dag við grunnhreyfingu eins og að anda er 1600. Ef ég bæti svo við líkamsræktinni sem ég stunda þá brenni ég 2100 kalóríum yfir daginn. Þannig að til að standa í stað má ég borða rúmar 2000 kalóríur á dag. Til þess að léttast um hálft kíló þarf maður að skapa 3500 kalóríu mínus. Sem þýðir að með líkamsrækt má ég borða 1600 kalóríur á dag. Sem er fullkomið af því að ef maður fer undir RMR þá er maður að skapa "hungursneyð" fyrir líkamann sem hægir á brennslu og er ekki gott fyrir fitutap. Að sjálfsögðu ef maður heldur það út nógu lengi þá að sjálfsögðu endar maður á að léttast; það er víst enginn feitur í útrýmingarbúðum, en það er ekki lífstíll sem ég hef áhuga á. Ég skipti kalóríunum mínum yfir vikuna þannig að ég nota stóran hluta á sunnudögum, mjög lítinn á mánudögum og held mér svo í 1500 hina dagana. Og þessi vika var ekki neitt öðruvísi. Eini munurinn er að ég skrifaði ekki neitt niður. Sem þýðir að ég hef greinilega stungið hinu og þessu upp í mig og án þess að skrá það niður þá laumast þær kalóríur undir radarinn. Mér finnst það samt léleg afsökun, ég hlýt að hafa gert eitthvað meira vitlaust en bara get ekki sett fingurinn á það.

Það sem aðallega gerist er að ég fer að hugsa of mikið. Ég leyfi vigtinni alltof mikið að stjórna líðan minni. Þetta skiptir engu máli. Ég held bara mínu striki. Engu að síður er ég sár, svekkt og sorrí, ríf í hár mitt og skegg og fæ magakrampa við áhyggjur af framtíðinni. Ef ég þyngist um 400 grömm á 1600 kalóríu kúr hvað gerist þá þegar ég verð léttari og léttari og má borða minna og minna? Hvernig ætla ég að halda þessu út að eilífu? Eins mikið og ég segji sjálfri mér að þetta snýst ekki um áfangastaðinn heldur ferðalagið þá get ég ekki að því gert en að hugsa um daginn sem ég stend á vigtinni og sé 71 kíló. Og 400 grömm upp á við tefja það andartak.

Oh, well, nevermind. Þetta skiptir í alvörunni engu máli. Það eina sem skiptir máli er að halda áfram. Þetta hefur virkað hingað til og ein vika hefur ekkert að segja þegar við horfum á tímann sem það tók mig að verða þetta feit og tímann sem það kemur til að taka mig að verða eins og ég vil vera. It´s not whether you get knocked down; it´s whether you get back up.

1 ummæli:

Harpa sagði...

Þetta er vel skrifaður og góður pistill hjá þér gamla (setja copyright á þetta). Mundu síðan bara að "what goes up, must come down."