sunnudagur, 24. janúar 2010


Öll heila ástæðan fyrir breyttum og betruðum lífstíl kom í ljós í dag. Við Láki ákváðum að veðrið væri nógu gott til að skokka út á róló og kanna hverning róluvöllurinn kom undan vetri. Ponciau Banks sem er svæðið sem telst til útivistar og skemmtunar er alveg svakalega skemmtilegt og vel heppnað hjá Wrexham County Borough Council. Þar eru skemmtilegir krákustígar til að þræða, míní útgáfa af Stonehenge (ekki hugsa um Spinal Tap), tennisvellir, svakalega flottir hjóla- rampar, hljómsveitarpallur og síðast en ekki síst þessi líka fínasti róluvöllur. Við Láki erum búin að stunda þennan róluvöll núna í tæp sex ár og í allan þann tíma hef ég kjagað um svæðið og svona smá tekið út fyrir að þurfa að vera þar. Það var einfaldlega of erfitt fyrir mig. Og þessi tilfinning að vera með honum þarna að leika og geta ekki; beygt mig niður, kropið á hnjánum, hlaupið á eftir honum, klifrað upp, hangið í rim, sveiflað mér og rennt mér á rennibraut var svo hræðileg að ég bara gat ekki meira. Ég varð að gera eitthvað í þessu. Tilhugsunin um að vera lélegri móðir en ég gæti verið var bara of sár. Og í dag hlupum við í gegnum Rhos, framhjá Stiwt leikhúsinu og Rhos Colliery Club og niður í Ponciau Banks. Þar fórum við í eltingarleik í kringum Stonehenge og klifruðum svo stein af steini. Við róluðum og hringsnérumst í hringekju, þóttumst vera skrímsli og héngum í apanetinu. Skemmtilegast var að klöngrast upp á litla kastalann sem er með rennibraut. Síðast þegar við vorum á róló klifraði ég þangað upp en gat svo ekki beygt hnén til að setjast niður svo ég gæti rennt mér. Ég gat hvort eð er ekki þröngvað rassgatinu á mér í gegnum járnstangirnar sem rennibrautin byrjar á. Það var of stórt. En í dag, í dag fór ég upp á kastalann, greip í járnið og sveiflaði mér niður. Ég festist á miðri leið en það var meira út af gallabuxum sem renna illa en að rassinn væri of stór. Láki hló og hló og hoppaði upp og niður af gleði yfir að mamma væri að renna sér á eftir honum, og ég fór næstum því að grenja það var svo gaman að sjá svipinn á honum. Þetta er búinn að vera góður dagur.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Skemmtileg mamma :-)
Love, Lína