mánudagur, 29. mars 2010

"Fat people have got nothing to be proud of" stundi feiti maðurinn út úr sér þar sem hann stóð á vigtinni í Biggest Loser á meðan tárin láku niður bústnar kinnarnar og spikfellingarnar hristust við ekkasogin. Ég gat ekki annað gert en að segja tut tut við sjónvarpið. Ég er nefnilega allsekki sammála feita manninum. Ég er stolt af eiginlega öllu sem ég gerði vel á meðan ég var yfir 100 kíló. Ég var feit en það var ekkert að mér. Og hér er vandamálið. Eins stolt og ég er af "afrekum" mínum og eins og mér líður betur líkamlega núna, þá þvertek ég algerlega fyrir að það hafi eitthvað verið að mér eins og ég var áður. Og hér er þversögnin, og það sem ég held að vefjist hvað mest fyrir öllu feitu fólki. Á meðan við erum feit viljum við að við fáum hrós fyrir að vera við sjálf, og þegar við grennumst viljum við fá hrós fyrir að grennast. Ég er kannski svona skringilega gerð en ég get alls ekki hatast við manneskjuna sem ég var áður, mér hefur alltaf þótt ég hafa margt til brunns að bera og það er ekki margt sem ég myndi breyta. Ég til dæmis horfi á brúðarmyndirnar mínar og hugsa með mér hvað ég var falleg þann dag, samt var ég 117 kíló þegar ég gifti mig. Ég sé enga ástæðu til að endurtaka brúðkaupið þegar ég verð 70 kíló, ég var alveg fullkomin eins og ég var þann dag. Ég hef að sjálfsögðu alltaf verið haldin reverse anorexia, þ.e. mér finnst ég alltaf vera miklu grennri en ég er í alvörunni, ég hef aldrei borið skynbragð á hvernig ég lít út í alvörunni. Ég fæ alltaf jafnmikið áfall þegar ég sé myndir af sjálfri mér. Og á sama tíma finn ég alltaf eitthvað til að hrósa sjálfri mér fyrir. En eins og þetta er erfitt, og eins og þetta allt saman hefur í raun tekið yfir allt mitt líf, verð ég að segja að ég hef sjaldan verið eins ánægð með lífið og sérstaklega með sjálfa mig og ég er núna. Mér finnst að við hvert kíló sem fer, vaxi ég sem manneskja. Og á sama tíma og ég er alveg sannfærð um að ég hefði alveg getað kjagað í gegnum lífið á öðru hundraðinu og verið ánægð með mitt og mína, þá held ég að þetta ferðalag mitt hafi kryddað og bragðbætt alla tilveruna.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábært "innlegg" - er svo sammála þér þarna :)
Maður á ekki að vera sinn versti óvinur, hvort sem maður er 50-70-90-120 eða hvað mörg kíló :)

Fæ kannski að linka á þig? :)

kv. Ásta

barattan.wordpress.com

Guðrún sagði...

Að hafa sterka sjálfsmynd og vera fullur sjálfstrausts er fyrir öllu.

Harpa sagði...

Ég hef nú alltaf litið upp til þín Svava mín. Alltaf fundist þú hafa mikið til brunns að bera sama hve mörg kg þú ert.
Eina sem ég sakna stundum er kærulausa Svava (og þetta kemur kg fjölda ekkert við). Þ.e. Svavan sem t.d. lifði eins og kóngur daginn sem hún fékk útborgað. En gvuð, ég er ekki að hvetja þig til þess að taka upp gamla (ó)siði, komin með barn, eiginmann og húsbréf.
Við þurfum samt að taka einn svona dag fljótlega ;-).