föstudagur, 12. mars 2010


Gríðarlegur hressleiki hér í dag, út að hlaupa í roki og rigningu og svo lyftingar. Ég get enn ekki hlaupið lengur en 11 mínútur í einu alveg sama hvað ég reyni en af einhverjum ástæðum virðist ég vera að hlaupa hraðar. Það finnst mér nú alger óþarfi, ég hef engar áætlanir um að gerast spretthlaupari. Engu að síður þá kláraði ég 30 mínútur við húshornið í stað þess að klára þær hjá næstsíðustu ruslatunnunni á göngustígnum fyrir aftan húsið. Við erum að tala um einhverja 400 metra. Ég skil þetta ekki alveg. Hressandi engu að síður. Ég hef það núna á tilfinningunni að ég skjótist hér um göturnar eins og eldflaug, skjótari en skugginn skýst ég um og það er nú voða skemmtileg tilfinning. Ég er líka allt öðruvísi í laginu en ég hélt að ég væri. Ég hafði alltaf rölt um í þeirri fullvissu að ég væri svona "blond bombshell", stundaglaslöguð undir öllu spikinu. En ég er bara allsekki þannig. Ég er með grannar mjaðmir og breiðar, sterklegar axlir. Ég er með langa leggi og sterka handleggi. Stærstu brjóst í Evrópu eru líka eitthvað að koðna undan álaginu. Úr 42 niður í 36 ummál og niður um 3 skálastærðir. Sem betur fer, ég hefði í alvörunni oltið um koll ef þau myndu ekki minnka. Það sem verra er hversu hjólbeinótt ég er. Lappirnar eru alveg í hring. Ég er semsé miklu íþróttamannslegri en mig grunaði og minni Monroe. Þetta er bara eftir öllu öðru, og hentar mér vel. Það er ekkert slæmt að vera íþróttamaður.

Engin ummæli: