laugardagur, 17. apríl 2010

Hér vöknuðum við í morgun við glampandi sólskin og greinilegt sumar í lofti. Himinninn heiður og blár og fólk á ferli með morgunblaðið sitt og mjólkina út í te á stuttbuxum og léttum skyrtum. Þetta er augljóslega dagur fyrir mig að fara til Tony´s og kaupa þykkari garðhanska til að klára að klippa burtu afganginn af rósarunnanum. Svo ætla ég að slá grasið, stinga kant og sópa burtu drullu og drasli sem veturinn skildi eftir sig á göngustígnum. Þá ætti að vera hægt að dusta af garðhúsgögnum og gasgrilli til að setja upp tilbúið fyrir langar setur úti í garði. Já, 18 stiga hiti og brakandi sólskin er aldeilis til að létta lundina. Best að drífa sig í verkin. Ó, já og ég gleymdi næstum að segja að ég sté á vigt eftir vikupásu frá henni og var mjög ánægð að sjá 1 kíló týnt og tröllum gefið. Ég er núna 24% minni að rúmmáli en ég var fyrir rúmu ári. Ekki slæmt.

1 ummæli:

Guðrún sagði...

Glæsilegt...bæði að heilt kíló sé farið á einni viku og veðrið. Hér er bara gluggaveður en við sjáum gosmökkinn út um eldhúsgluggann.