föstudagur, 11. júní 2010
Ekki veit ég alveg afhverju ég ákvað að ég ætti að vera 74 kíló. Svona þegar ég pæli í því þá hugsa ég að mér hafi fundist það vera hæfilega bjartsýnislegt og á sama tíma nógu þungt til að það væri ekki hægt að segja að ég væri að reyna að verða eitthvað örmjótt skar. Það er líka óskaplega þungt í mér pundið, eitthvað sem pabbi segir að sé í ættinni. Og þó ég segi sjálf frá þá hugsa ég að það sé ekki fjarri lagi, þegar ég er fallega klædd eru örugglega ekki margir sem giska á að ég sé næstum hundrað kíló. Ég setti upp plan þar sem ég vann að því að léttast um 10% líkamsþyngdar á hverjum þremur mánuðum. Þannig átti ég að léttast um 13 kíló frá mars og út maí, 11.7 kíló frá júní og út ágúst og svo koll af kolli. Þannig átti þetta að taka mig rétt um 18 mánuði. Það tímamark er nú útrunnið en ég er svo sem ekkert nojuð yfir því. Ég gerði alltaf ráð fyrir að þetta myndi í alvörunni taka lengri tíma. Og fór svo líka að skilja að "þetta" tekur meira en langan tíma, "þetta" er lífstíðarverkefnið mitt. Þetta er búið að vera upp og ofan hjá mér, sjálfri finnst mér ennþá að mér gangi rosalega vel og það án þess að vera að sýna fram á svakalegt fitutap að undanförnu. Jú, auðvitað öfunda ég smávegis fólk sem hríðléttist eins og fyrir kraftaverk, ég er jú enn með 74 kíló í huga, en mér finnst líka oft eins og að ég sé að þessu fyrir eitthvað svo miklu meira og merkilegra en að verða 74 kíló. Eins og til dæmis þetta. Ég grét allan daginn á miðvikudag af sársauka og af því að mér leið eins og ég væri svo mikill aumingi að þurfa að gefa hlaupin upp á bátinn. Á fimmtudag mætti ég ekki í ræktina heldur ákvað að leyfa líkamanum að jafna sig aðeins. Í morgun bætti ég svo 2.5 kílóum við hnébeygjurnar. 35 kíló plús 20 kílóa stöng. Djöfull er ég kúl. Ég hugsa að ég taki með mér myndavél næst. Og just like that hætti ég að gráta og finn mér nýtt takmark. Þessar tölur allar eru nefnilega bara teknar úr loftinu. Ég veit og sætti mig við að ég léttist afskaplega hægt og get bara ekki leyft mér að hengja hamingju mína á tölu á vigtinni. Það er einfaldlega of erfitt, of heartbreaking. Ég er ekki megrunarrokkstjarna, frekar svona megrunarþjóðlagasöngvari.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli